Sagður hafa ógnað drengjum með hnífi

Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn og yfirheyrður eftir að hafa …
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn og yfirheyrður eftir að hafa ógnað unglingum.

Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn og yfirheyrður í gærkvöldi eftir að tveir 14 ára drengir tilkynntu lögreglu um að hann hefði ógnað þeim með hnífi. Atvikið átti sér stað í Árbæ við Fylkisheimilið. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni. 

Drengirnir tveir eiga að hafa kastað flugeld eða púðurkerlingu að bíl sem maðurinn ók. Maðurinn á að hafa stöðvað bílinn, veist að piltunum og beitt þá ofbeldi og hótað þeim með hnífi.

„Maðurinn var handtekinn og yfirheyrður eftir atvikið,“ segir Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn. Skýrsla var einnig tekin af drengjunum í gær. Á morgun munu drengirnir tveir og foreldrar þeirra koma til frekari skýrslutöku til lögreglu.  

Fleiri urðu vitni að atvikinu, meðal annars tveir jafnaldrar drengjanna, og var einnig tekin skýrsla af þeim í gærkvöldi. Drengirnir voru allir fjórir saman í gærkvöldi.   

Þegar rannsókn málsins lýkur fer málið til ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar verður tekin ákvörðun um hvort ákæra verði lögð fram.  

DV greindi fyrst frá málinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert