Nýjar víddir í Winter Park

Winter Park. Björk Sigurðardóttir kunni vel við sig í brekkunum …
Winter Park. Björk Sigurðardóttir kunni vel við sig í brekkunum vestra og þar opnaðist nýr heimur.

Í Winter Park í Colorado í Bandaríkjunum er meðal annars boðið upp skipulögð skíðanámskeið fyrir ungt fólk með hreyfihömlun. Björk Sigurðardóttir kynnti sér starfsemina, sótti námskeið vestra fyrir skömmu og er reynslunni ríkari eftir vikudvöl á svæðinu.

Björk hafði aldrei farið á skíði en lét það ekki hindra sig. Eftir að hafa sótt kynningarfund hjá Íþróttasambandi fatlaðra stöðvaði hana ekkert. „Þetta var einstakt tækifæri til þess að reyna sig í fjöllunum og ótrúlega gaman,“ segir hún. „Ég hef aldrei kynnst öðru eins.“

Vel skipulögð dagskrá

Íþróttasamband fatlaðra og NSCD (National Sport Center for Disabled) í Winter Park hafa unnið saman í rúman áratug og það að gefa ungum Íslendingum með hreyfihömlun tækifæri til þess að nýta aðstæðurnar vestra er nýtt samstarfsverkefni.

Dagskráin var skipulögð frá morgni til kvölds og var hver þátttakandi með sinn leiðsögumann eða kennara. Skíðað var á svokölluðum sætisskíðum (e. sit ski) og segir Björk, sem hefur verið hreyfihömluð frá fæðingu, gengur með göngugrind og fer líka ferða sinna í hjólastól, að hún hafi setið í stól með tveimur skíðum en eins hafi verið boðið upp á stól með einu skíði fyrir þá sem ráða yfir miklu og góðu jafnvægi. „Búnaðurinn gat ekki verið betri og allar aðstæður magnaðar,“ segir hún. „Einn daginn fengum við að reyna okkur á gönguskíðum með sæti og það var hörkupúl,“ heldur hún áfram. „En það var gaman að fá tækifæri til þess að prófa það líka, rétt eins og að fara á hundasleða og renna í blöðrudekki.“

Björk segir að aðstoðarfólkið hafi staðið sig sérlega vel og sagt þátttakendum til. „Ég fékk góða tilsögn og lét svo bara vaða,“ segir hún og á ekki til orð yfir fegurðina og brekkurnar. „Það er engu líkt að vera í 9.000 feta hæð og skíða svo niður. Veðrið var gott en það beit svolítið þegar frostið fór niður í mínus 20 gráður. En það slapp alveg.“

Það er viss ögrun í því að reyna eitthvað nýtt og Björk segist hafa fengið mjög mikið út úr skíðaferðinni. Hún hafi alla tíð fylgst vel með íþróttum en ekki fundið sig í neinni þeirra þar til nú. „Það opnaðist alveg nýr heimur í Winter Park,“ segir hún. „Ég hafði aldrei farið á skíði og mér datt aldrei í hug að ég gæti það. En þetta opnaði algerlega nýjar víddir og ég ætla pottþétt að fara aftur og læra meira. Ég hef lært undirstöðuatriðin og mig langar til þess að byggja ofan á þau. Það er ekki síður mikilvægt að sjá að allir geta skíðað í Winter Park, jafnt fatlaðir sem ófatlaðir. Þetta sýnir að það er samfélagið sem gerir mann fatlaðan en ekki öfugt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka