Sjúkrabíll fauk út af við Bláfjallaafleggjara

Vonskuveður hefur verið á landinu í dag.
Vonskuveður hefur verið á landinu í dag. mbl.is/ RAX

Sjúkrabíll fauk út af veginum við Bláfjallaafleggjarann, í nágrenni við gömlu námurnar, nokkru eftir hádegi í dag. Sjúkrabíllinn hafði verið kallaður út vegna rútu með ferðamenn sem rann til á veginum og festi sig.

Að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu slasaðist enginn þeirra átta farþega sem í rútunni voru þegar hún fór út af. Aftakaveður er hins vegar á staðnum og þegar tveir sjúkrabílar og dælubíll slökkviliðsins komu á slysstað vildi ekki betur til en svo að annar sjúkrabíllinn fauk út af. Ökumanni varð ekki meint af, en bíllinn hefur nú verið bundinn við dælubílinn og von er á vélskóflu frá Hafnarfjarðarbæ til að aðstoða við að koma sjúkrabílnum niður eftir.

Fólkið úr rútunni er komið til byggða heilt á húfi, en að sögn slökkviliðsins er mikil mildi að ekki fór verr þar sem fólkið varð að ganga nokkra leið niður brekku í hálku í roki sem varla var stætt í. 

Vega­gerðin hefur lokað fjölmörgum vegum á land­inu í dag, m.a. veg­in­um um Sand­skeið, Hell­is­heiði, Þrengsli og eins Suður­lands­vegi á milli Hvolsvall­ar og Vík­ur í Mýr­dal. Þá hefur ekk­ert verið flogið inn­an­lands og taf­ir hafa orðið á milli­landa­flugi þar sem Reykja­nes­braut­inni hef­ur verið lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert