Skilin að ganga yfir suðvestanlands

Vind er tekið að lægja á Reykjanesinu.
Vind er tekið að lægja á Reykjanesinu. mbl.is/RAX

Vind er örlítið tekið að lægja úti á Reykjanesinu að sögn Helgu Ívarsdóttir,veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Á Reykjanesbrautinni fór vindhraði upp í 27 m/s og hviður fóru upp undir 40 metra þegar verst var. Búið er að opna á ný fyrir umferð um Reykjanesbrautina.

Veðrið á höfuðborgarsvæðinu náði hámarki rétt fyrir kl. þrjú í dag og mældist hviða sem var 30 m/s úti fyrir Reykjavíkurflugvelli um það leyti. Skilin eru þó enn ekki gengin yfir og enn er að bæta í vind undir Hafnarfjalli. Þar er vindhraði nú um 27 m/s og nær allt að 47 m/s í hviðum.

„Það er alveg við það að lægja hér suðvestanlands,“ sagði Helga. „Spáin er að ganga eftir og við bíðum bara eftir að það byrji að lægja hjá okkur.“

Farið er hins vegar að bæta í vind fyrir norðan og austan og þar verður hvassara eftir því sem líður á daginn. Búast má við stormi í Eyjafirði um sexleytið í kvöld. Hvassast verður hins vegar á norðaustanverðu landinu síðar í kvöld og má búast við að veðrið nái hámarki þar um níuleytið, með meðalvindhraða á bilinu 20-30 m/s.

Það dregur úr vindi og í nótt og á morgun verður allhvöss eða hvöss suðvestanátt með éljagangi. Það léttir síðan til fyrir austan og dregur úr vindi þegar líður á daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert