Facebook veiti lögreglu upplýsingar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur Íslands hefur úrskurðað að Facebook skuli veita lögreglustjóranum á Suðurlandi upplýsingar um auðkenni fjarskiptatækis sem hafði tengst notendareikningi samskiptamiðilsins.

Úrskurðurinn tengist rannsókn lögreglunnar á ætluðum brotum sem fólust í því að senda myndefni og textaskilaboð með grófu klámefni frá tilteknum notanda á samskiptamiðli til annarra notenda sama miðils á tilteknu tímabili.

Héraðsdómur Suðurlands hafnaði beiðni lögreglustjórans á Suðurlandi um að fá upplýsingarnar 15. febrúar síðastliðinn og kærði lögreglustjórinn þann úrskurð til Hæstaréttar.

Facebook hefur verið dæmt til að veita lögreglunni upplýsingarnar.
Facebook hefur verið dæmt til að veita lögreglunni upplýsingarnar. AFP

Borið saman við dóm vegna nauðgunarkæru á Þjóðhátíð

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að um sé að ræða upplýsingar um fjarskipti tiltekins tækis sem rannsókn málsins lýtur beinlínis að. Hér gegni því öðru máli en í dómi Hæstaréttar frá því 27. ágúst 2012 þar sem óskað var eftir upplýsingum sem beindust að ótilgreindum fjölda fjarskiptanotenda sem snertu ekkert það mál sem var til rannsóknar. Það mál var vegna nauðgunar sem var kærð á Þjóðhátíð í Eyjum árið 2012.

Í því máli hafnaði Hæstiréttur kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi um að Símanum yrði gert að afhenda lögreglunni upplýsingar um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem náðu inn í Herjólfsdal á tíu mínútna tímabili aðfaranótt frídags verslunarmanna þetta ár. Hæstiréttur sneri þar við niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands sem hafði fallist á beiðni lögreglu.

Geta skipt miklu máli fyrir rannóknina

Í dómi Hæstaréttar, sem var birtur í dag, kemur fram að Facebook skuli veita lögreglustjóranum á Suðurlandi uppýsingar um IP-tölu, IMEI-númer eða önnur rekjanleg auðkenni þess fjarskiptatækis sem tengst hefur notendareikningnum Facebook á tímabilinu 5. janúar til 10. febrúar 2017.

„Þar sem upplýsingar þær sem sóknaraðili vill afla geta skipt miklu fyrir rannsókn málsins er fullnægt lagaskilyrðum til að fallast á beiðnina og verður hún tekin til greina,“ segir í dómi Hæstaréttar.

mbl.is/Þórður

Tókst ekki að loka á notandann

Í úrskurði héraðsdóms hafði áður verið greint frá því að brotaþoli hafi 8. janúar síðastliðinn leitað til lögreglunnar á Suðurlandi til að tilkynna blygðunarsemisbrot af hálfu tiltekins aðila sem hún hafi talið að stæði að baki grófum mynd-, texta- og myndbandssendingum til sín í gegnum samskiptaforrit vefsíðu. Í kjölfarið hafi aðilinn verið fenginn til skýrslutöku hjá lögreglu og þar hafi hann neitað alfarið sök í málinu.

„Brotaþoli hafi lýst því fyrir lögreglu að hún fái endurtekið sent myndefni og skilaboð í gegnum umræddan reikning þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir brotaþola til þess að loka á (e. block) notandann í gegnum vefsíðuna,“ sagði í úrskurðinum þar sem vitnað var í greinargerð lögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert