Hefur fallið í skuggann af skýrslunni

Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata.
Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú sýnist mér að það sé enn brýnna en áður að þetta verði gert,“ segir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata.

Hann var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem tíu þingmenn Pírata lögðu fram í síðustu viku um að rannsókn verði gerð á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.

„Þetta mál hefur fallið svolítið í skuggann af þessari stóru skýrslu. Menn er enn að jafna sig á þessu áfalli,“ segir Einar Aðalsteinn og á þar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna sölu ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum árið 2003. Hann kveðst vera bjartsýnn á að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Ef nefnd verður skipuð um málið er óskað eftir því að hún geri m.a. grein fyrir fjármagninu sem var flutt til landsins með fjárfestingaleiðinni, hvaðan það kom, hvaða einstaklingar eða félög voru skráð fyrir því og eignarhaldi þeirra.

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Ólafsson, fjárfestir, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, eru báðir á meðal þeirra sem fjölmiðlar hafa greint frá að hafi nýtt sér fjárfestingaleiðina. Báðir koma þeir við sögu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Ekkert kemur fram í skýrslunni um eignarhaldið á aflandsfélaginu Dekhill Advisors Limited sem fékk 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi aflandsfélagsins Welling & Partners þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Spurður segist Einar vonast til þess að hugsanleg rannsókn geti m.a. afhjúpað eignarhaldið á Dekhill. „Það eru lundar og Dekhill og allskyns menn, fyrirtæki og fyrirbæri sem við þurfum að upplýsa um."

Hann kveðst sérstaklega bjartsýnn á að þingsályktunartillagan verði samþykkt í ljósi þess sem kom fram í máli Benedikts Jóhannssonar, fjármálaráðherra, á Alþingi í morgun. Þar sagðist hann vera áhugasamur um að rannsaka hina bankana. „Hann er mjög áhugasamur um að mál verði heldur betur skoðuð betur ofan í kjölinn. Það kæmi mér á óvart ef hann væri ósáttur við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert