Ósátt við að fá ekki afleysingu fyrir Baldur

Ferðafélag Vestur-Barðastrandarsýslu segir það koma sér illa fyrir ferðaþjónustu og …
Ferðafélag Vestur-Barðastrandarsýslu segir það koma sér illa fyrir ferðaþjónustu og fiskeldi að Baldur sé tekin úr áætlun. Mynd/Eimskip

Ferðamálafélag Vestur-Barðastrandasýslu mótmælir þeirri ákvörðun Vegagerðarinnar að taka einhliða ákvörðun um að taka Breiðafjarðarferjuna Baldur úr áætlun, án þess að gera ráð fyrir afleysingaskipi. Þetta sé gert án alls samráðs við heimafólk.

Í fréttatilkynningu frá félaginu er bent á að þetta sé gert á sama tíma og fjöldi einstaklinga sé að leggja allt sitt undir til að fjárfesta í ferðaþjónustu og byggja upp á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegagerðin kippir fótum undan þessu fólki á mjög krítískum tíma, þegar ferðamannatímabilið er að hefjast.

„Þegar gistinætur á svæðinu eru bornar saman við sama tíma á síðasta ári þá má sjá mikla fækkun á milli ára. Þetta gerist á sama tíma og ferðamönnum fer fjölgandi annarsstaðar á landinu. Þetta er hægt að rekja beint til ferjunnar þar sem hún var í áætlun á þessum tíma á síðasta ári,“ segir í tilkynningunni.

Ekki bara slæmt fyrir ferðaþjónustuna 

Jaðarsvæði eins og sunnanverðir Vestfirðir eigi undir högg að sækja á ýmsum sviðum og ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafi verið vinna að því að lengja ferðamannatímabilið svo það nái einnig yfir vor og haust. Fjarvera ferjunnar hjálpi ekki til við að auka afkomu ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu.

Ástandið komi þó ekki eingöngu illa við ferðaþjónustufyrirtækin, því verið sé að slátra og flytja allt að 65 tonn af fiski til útflutnings á degi hverjum og neyðist flutningafyrirtækin nú til að flytja hann um vegi „sem eru vægast sagt í slæmu ásigkomulagi og hreinlega hættulegir á köflum.“

„Síðastliðið haust var Baldur einnig sendur í slipp án þess að gera ráð fyrir afleysingu og skilst okkur að það sama standi til í haust. Við bindum miklar vonir við og ætlumst til þess að Vegagerðin leysa það tímabil með afleysingabát yfir fjörðinn.

Á meðan þetta svæði býr ekki við betri samgöngur á landi en raun ber vitni þá er þetta ástand algjörlega óásættanlegt og óþolandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert