Tekur 30 ár að byggja upp vegakerfið

Jón Gunnarsson samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Jón Gunnarsson samgönguráðherra telur að það taki rúmlega 30 ár að byggja upp stofnleiðir vegakerfisins. Þetta kemur fram í svari Jóns við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, varaþingmanns VG.

Bjarni spyr ráðherra hvenær ráðherra teldi að lokið yrði við endurbyggingu allra helstu stofnleiða á landi og tengingu þeirra við þéttbýli, þar sem eru hundrað íbúar og fleiri, með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli.

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson. Ljósmynd/Bjarni Jónsson

Jón bendir á að Vegagerðin hafi gert gróft mat á kostnaði við að byggja vegakerfið upp í samræmi við nútímakröfur. Niðurstaðan hafi verið sú að stofnleiðir kostuðu rúma 200 milljarða kr., auk jarðganga sem kostuðu rúma 120 milljarða kr.

„Á árunum 2015 og 2016 varð niðurstaðan að verja um 8 milljörðum kr. hvort árið en í ár verður varið tæpum 9 milljörðum kr. til þessara verkefna,“ segir í svari ráðherra. 

Jón segir enn fremur að fé til vegamála, sem og til annarra samgöngumála, hafi verið af skornum skammti undanfarin ár og víða skorti fé til viðhalds og uppbyggingar. „Alþingi hefur síðasta orðið um fjárveitingar til samgöngumála eins og til annarra málaflokka. Ráðherra mun beita sér fyrir því að þær fjárveitingar sem fyrir hendi eru nýtist sem best og eins að afla meira fjármagns til að auka brýnar framkvæmdir í samgöngumálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert