Ekki standi til að sameina MR og Kvennó

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki stendur til að sameina Menntaskólann í Reykjavík og Kvennaskólann í Reykjavík, eins og fyrrverandi rektor MR segist óttast á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þetta staðfestir Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra í samtali við mbl.is.

Linda Rós Mikaelsdóttir, kennari við MR og fyrrverandi rektor skólans, segir í Fréttablaðinu í dag að hana gruni að verið sé að gera „enn eina tilraunina til að sameina skólana og gera stóran skóla“. Þá segir hún að það yrði „enn eitt stórslysið“ í menntakerfinu. Tilefni grunsemdanna sé að ekki sé búið að ganga frá ráðningu nýs rektors við MR þó mánuður sé liðinn frá því Yngvi Pétursson sagði upp.

Óábyrgt að skoða ekki allar leiðir

Kristján Þór segist líta svo á að þó ekki standi til að sameina skólana beri stjórnvöldum að skoða allar leiðir til að bregðast við fækkun nemenda á framhaldsskólastigi. Annað segir hann vera óábyrgt, en veruleikinn sé sá að nemendum í framhaldsskólum muni fækka um 6-700 á ári á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum samkvæmt nemendaspá.

„Þetta snýst fyrst og fremst um það hvernig skólakerfið ætlar að laga sig að þessum veruleika,“ segir Kristján þór og bætir við að almenningur hljóti að gera þá kröfu á stjórnvöld hverju sinni að þau skoði mál út frá öllum hliðum.

„Við hljótum að horfa á það hvernig fjármálaáætlun til lengri tíma lítur út og hvernig breytingar er verið að gera með henni frá síðustu fjármálaáætlun. Í ljósi þeirra breytinga er augljóst að það þarf að vanda sig við rekstur framhaldsskólakerfisins,“ segir hann.

Endanleg ákvörðun um sameiningu FÁ og Tækniskólans ekki tekin

Kristján nefnir hugsanlega sameiningu Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskólans sem dæmi um viðbrögð við fækkuninni, en segir endanlega ákvörðun um sameininguna hins vegar ekki hafa verið tekna. „Við ákváðum að skoða kosti og galla þeirrar sameiningar án allra skuldbindinga og það er enn verið að rýna í það mál,“ segir Kristján og bætir við að á meðan hann hafi ekki fengið afgerandi svör eða niðurstöðu verði ekki tekin ákvörðun um sameiningu.

Þá hafi vinnan við samstarf framhaldsskólanna á Norðurlandi verið í gangi síðustu tvö ár, en þess utan sé frekara samstarf framhaldsskóla ekki á teikniborðinu.

Segir hann umræðu um mögulega sameiningu framhaldsskóla hins vegar hafa verið á þann veg að um sé að ræða óbreytanlega stærð. „En eðlilega hljóta framhaldsskólar að mótast að þeim breytingum sem verða í umhverfi þeirra, þörfum og væntingum nemenda og þeim fjölda nemenda sem í þá sækja.“

Spurður um það hvenær staða rektors MR verður auglýst segir Kristján það að öllum líkindum gerast fljótlega. Ekkert eitt frekar en annað hafi valdið því að staðan hafi ekki enn verið auglýst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert