Talaði íslensku við farþegana

Danski flugmaðurinn Philippe Andersen hefur vakið mikla lukku farþega Primera …
Danski flugmaðurinn Philippe Andersen hefur vakið mikla lukku farþega Primera Air fyrir að flytja tilkynningar á íslensku.

Fólki fellur það misjafnlega vel í geð að fljúga landa á milli og þá getur áhöfn vélarinnar oft skipt sköpum. Það kom til dæmis farþegum í flugvél flugfélagsins Primera Air á leið til Alicante skemmtilega á óvart að danskur flugmaður vélarinnar talaði íslensku þegar hann veitti upplýsingar um flugið.

Flugmaðurinn sem um ræðir heitir Philippe Andersen. Þegar Morgunblaðið setti sig í samband við hann kvaðst hann afar ánægður að heyra að farþegar hefðu notið þess að heyra hann flytja tilkynningar á íslensku. Philippe var búsettur hérlendis í um það bil sex ár og vann á þeim tíma á skrifstofu Primera Air.

Árið 2015 hóf hann störf sem flugmaður og flutti þá aftur heim til Danmerkur. Ári síðar ákvað flugfélagið að senda hann aftur til Íslands og hefur hann búið hér síðan. Að sögn Philippe lagði hann sig fram við að læra íslenskuna. Hún hafi hins vegar ekki reynst auðveld.

„Ég byrjaði að læra íslensku þegar ég vann á skrifstofu Primera Air og hef verið að æfa mig allar götur síðan. Þetta er erfitt tungumál að læra en mér finnst mikilvægt að læra það samt sem áður“

Sá eini sem talar íslensku

Philippe segist alla jafna fá mikið hrós frá ánægðum farþegum í lok hvers flugs. Fólk sé almennt ánægt þegar einhver leggur það á sig að læra tungumálið þess. Hann er eini starfsmaður Primera Air sem búið hefur hér á landi. Þá sé hann einnig sá eini sem tali íslensku. 

Hann hafi því sest niður með íslenskri kærustu sinni og með hennar hjálp tókst honum að semja litla ræðu á íslensku sem hann flytur nú í hverju flugi. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert