Fékk fyrsta Moggann í arf

Kjartan fann fyrsta tölublað Morgunblaðsins í upprunalegu prenti í dánarbúi …
Kjartan fann fyrsta tölublað Morgunblaðsins í upprunalegu prenti í dánarbúi frænda síns. mbl.is/Ófeigur

„Blaðið er nánast eins og nýtt þrátt fyrir að vera næstum orðið 104 ára,“ segir Kjartan Aðalbjörnsson, eigandi fyrsta tölublaðs Morgunblaðsins í upprunalegu prenti.

Morgunblaðið kom fyrst út 2. nóvember 1913 og var fyrsta blaðið átta blaðsíður að stærð. Upphafsmaðurinn að stofnun blaðsins var Vilhjálmur Finsen, en vinur hans og samherji, Ólafur Björnsson, lagði til húsnæði og prentaðstöðu í Austurstræti.

„Langaafi minn, Aðalbjörn Stefánsson, hefur líklegast keypt þetta fyrsta tölublað Morgunblaðsins á þrjá aura og ákveðið að geyma það,“ segir Kjartan en hann fann blaðið í dánarbúi frænda síns, Aðalbjörns Aðalbjörnssonar. Aðalbjörn eldri starfaði sem prentari og var m.a. einn stofnenda Gutenberg-prentsmiðjunnar. Aðalbjörn yngri starfaði hins vegar sem verkamaður og bjó alla sína tíð á Skólavörðustíg.

Mogginn fannst í umslagi ásamt öðrum tölublöðum.
Mogginn fannst í umslagi ásamt öðrum tölublöðum. mbl.is/Ófeigur

Erfitt að meta verðmæti

„Pabbi minn tók við þessum gögnum frá Aðalbirni Aðalbjörnssyni árið 2002 þegar hann lést, en hann fór í raun aldrei í gegnum þau. Þegar ég fór síðan að garfa í þessu dóti í síðustu viku fann ég þetta umslag sem stóð á „Dagblöð: fyrstu tölublöð“,“ segir Kjartan en hann fann eintakið af Morgunblaðinu í því umslagi ásamt öðrum fyrstu tölublöðum sem flestöll eru ekki til lengur. „Það kom manni dálítið á óvart að finna þennan Mogga innan um allt þetta dót.“

Spurður hvers vegna blaðið hafi verið geymt svona lengi svarar Kjartan að það hafi líklega verið söfnunarárátta, „hann vildi greinilega geyma þetta, en blaðinu hefur líklega verið lítið flett. Það hefur því í raun verið geymt í þessu umslagi allan þennan tíma.“

Kjartan hefur enn ekki ákveðið hvað gera skal við blaðið, en segist bæði hafa íhugað að selja það og að koma því á safn. Spurður hvort hann vilji ekki eiga blaðið sjálfur segir Kjartan: „Ég eiginlega bara veit það ekki. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvers virði þetta er en ég hef enga hugmynd um það.“

Morgunblaðið ræddi við Ara Gísla Bragason, eiganda Bókarinnar, fornbókaverslunar í Reykjavík, sem sagði að verðið lægi algjörlega í því hversu mikið einhver væri tilbúinn að borga fyrir það. „Það er mjög erfitt að segja til um hversu mikið er hægt að fá fyrir blaðið og fer það algjörlega eftir framboð og eftirspurn en framboðið er að minnsta kosti lítið,“ segir Ari Gísli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert