Spá 25 stiga hita

Í dag er tilvalið að skella sér í sund á …
Í dag er tilvalið að skella sér í sund á Akureyri og prófa nýju vatnsrennibrautirnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Veðrið mun halda áfram að leika við Norðlendinga og nærsveitamenn í dag og spáir Veðurstofa Íslands allt að 25 stiga hita á norðaustanverðu landinu. Varað er við hvassviðri á norðanverðu Snæfellsnesi.

Samkvæmt veðurspá næstu daga verður áfram hlýtt á Norðausturlandi að minnsta kosti fram má þriðjudag. Er alla þessa daga spáð yfir tuttugu stiga hita á svæðinu.

Um miðja viku fer hins vegar að hlýna sunnan- og vestanlands og á fimmtudag er spáð 20 stiga hita á Vesturlandi. Á föstudag er svo búist við að hlýjast verði á Suðvesturlandi.

Veðurvefur mbl.is.

Veðurspá næsta sólarhringinn er þessi:

Suðaustan 5-15 m/s, hvassast suðvestantil, en 15-23 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi, þar sem búast má við snörpum hviðum. Lægir smám saman er líður á daginn. Skýjað og dálítil væta með köflum sunnanlands, en rigning vestast á landinu. Styttir upp að mestu í kvöld. Bjart verður norðaustantil. Hæg suðlæg átt á morgun, bjart og úrkomulítið, en suðvestan 5-10 m/s og skýjað að mestu sunnan- og suðvestanlands. Hiti 10 til 25 stig að deginum, hlýjast norðaustanlands.

Á vef Veðurstofunnar er að finna eftirfarandi viðvörun: Búist er við stormi og hvössum vindhviðum (25-35 m/s) á norðanverðu Snæfellsnesi fram undir hádegi. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Veðurspá næstu daga er þessi:

Á mánudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, hvassast suðvestanlands. Víða bjart, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 12 til 25 stig, hlýjast norðan- og austanlands. 

Á þriðjudag:
Suðaustlæg átt 5-10 m/s en heldur hvassara syðst um kvöldið. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt sunnantil, en léttskýjað nyrðra. Hiti 10 til 23 stig, hlýjast norðaustanlands. 

Á miðvikudag:
Austlæg átt, 5-13 m/s, en 10-18 með suðurströndinni, og víða léttskýjað, en skýjað og þokuloft við austurströndina. Hiti 8 til 22 stig, svalast austast. 

Á fimmtudag:
Norðaustlæg átt, 5-15, hvassast við suðausturströndina. Skýjað austantil og dálítil væta en annars skýjað með köflum. Síðdegisskúrir suðvestanlands. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast vestanlands. 

Á föstudag:
Norðaustan 5-13. Skýjað að mestu og rigning, einkum austantil. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast suðvestanlands. 

Á laugardag:
Norðaustan 5-10, skýjað og rigning með köflum. Hiti 8 til 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert