Frelsarinn á flöskum fyrir jólin

Íslenskur jólabjór er tæpur helmingur þeirra jólabjórtegunda sem verða til …
Íslenskur jólabjór er tæpur helmingur þeirra jólabjórtegunda sem verða til sölu í Vínbúðunum fyrir þessi jól. mbl.is/Árni Sæberg

Frelsarinn, Almáttugur, Heims um bjór, Jólaþokan, Askasleikir og Hurðaskellir eru meðal þeirra bjórtegunda sem rata munu í hillur Vínbúðanna þann 15. nóvember nk. Koma jólabjórsins í verslanir vekur jafnan mikla athygli og fyrir þessi jólin verða bjórtegundirnar rúmlega 40 talsins og ná yfir rúm 50 vörunúmer, þar sem sumar tegundir koma í áli, gleri og mismunandi stærðum.

Þess má þá geta að tæpur helmingur jólabjórtegundanna er íslenskur.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir ívið meira af jólabjór verða verslunum Vínbúðanna í ár en í fyrra, bæði hvað varðar fjölda tegunda og magn. „Við merkjum að það er eftirspurn þessa fyrstu helgi,“ segir hún. „Við reynum því eins og við getum að vera komin með sem mest í sölu á þeim degi sem salan hefst og að þær tegundir sem fara í hvað mesta dreifingu séu komnar.“

Um 750.000 lítrar af jólabjór seldust í fyrra, en aukning í sölu jólabjórs hefur verið mikil sl. áratug. Þannig seldust 313.000 lítrar af jólabjór árið 2007 og 510.000 lítrar árið 2011. Sigrún Ósk segir þó hafa hægt á söluaukningunni undanfarin ár og þannig hafi t.d. um 670.000 lítrar selst árið 2014. „Við gerum ráð fyrir að sala jólabjórs í ár verði á milli 700-800.000 lítrar,“ segir hún.

Ekki sé þó um hreina viðbót í bjórsölu að ræða. „Það verður breyting á sölumynstrinu á bjór á þessu tímabili. Þeir sem kaupa bjór reglulega þeir bæta ekki þessari neyslu við, heldur er um tilfærslu að ræða,“ segir Sigrún Ósk.

Spurð hvort engar athugasemdir séu gerðar við að selja Frelsarann á flöskum segir hún svo ekki vera. Bjór með þessu nafni, sem og Almáttugur, hafi einnig verið í sölu fyrir síðustu jól. „Það voru áður fyrr einhver áhöld um hvort þetta væri viðeigandi, vegna regluverksins sem þá var, en það er búið að breyta því og nú erum við almennt ekki að gera athugasemdir við svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert