Frysta ástand meðan málið er hjá dómstólum

Með því að fallast á lögbannskröfu er embætti Sýslumannsins á …
Með því að fallast á lögbannskröfu er embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að frysta tiltekið ástand á meðan að málið er til meðferðar hjá dómstólum að því er segir í yfirlýsingu frá sýslumanni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Með því að fallast á lögbannskröfu er embætti sýslumanns að frysta tiltekið ástand á meðan að málið er til meðferðar hjá dómstólum. Þetta segir í yfirlýsingu frá Þórólfi Halldórssyni, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, vegna lögbanns sem lagt var á fréttir Stundarinnar og Reykjavík Media sem unnar voru úr gögnum sem komu innan úr Glitni.

Segir í yfirlýsingunni að lögfræðingar Fullnustusviðs embættis sýslumanns fjalli um lögbannsmál og að sýslumaður beri fullt traust til þeirra.

Lögbann sé  bráðabirgðaúrræði „sem kveður á um heimild til bráðabirgðaverndar réttinda með því að tryggja tiltekið ástand meðan aflað er úrlausnar dómstóla um þau. Eðli málsins þarf að taka skjóta ákvörðun í slíkum málum og úrræðið gerir aðeins að takmörkuðu leyti ráð fyrir að farið sé djúpt í efnisatriði máls,“ segir í yfirlýsingu sýslumanns.

Það mat fari hins vegar fram hjá dómstólum í staðfestingarmáli, sem höfða þurfi innan viku.

Bendir sýslumaður á að í lögum um kyrrsetningu og lögbann sé kveðið á um að leggja megi lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn, ef sá sem lögbannsins krefst sanni eða geri sennilegt að athöfnin brjóti gegn lögvörðum rétti hans og að ef þau telja megi að þau lögvörðu réttindi fari forgörðum verði hann knúinn til að bíða dóms. Þegar hafi komið fram í fréttum að talið sé að umrædd gögn geymi upplýsingar um persónulegan fjárhag þúsunda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert