Þögnin rofin um allan heim

#meetoo byltingin og þöggunarbyltingin sem varð hér á landi árið …
#meetoo byltingin og þöggunarbyltingin sem varð hér á landi árið 2015 eiga ýmislegt sameiginlegt. Ljósmynd/Samsett mynd

„Það sem er að gerast núna er að þetta er að vissu leyti endurtekning á byltingunni sem átti sér stað hér 2015,“ segir Helga Lind Mar, talsmaður Druslugöngunnar í samtali við mbl.is.

Myllumerkið #metoo hefur tekið yfir samfélagsmiðla síðustu daga þar sem fjölmargar konur segja frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi. Helga Lind segir vissan samnefnara vera með byltingunni nú og byltingunni sem varð hér á landi árið 2015 þegar konur sögðu frá reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi undir myllumerkinu #þöggun og #konurtala.

Beauty Tips með því að deila reynslu­sög­um sín­um af kyn­ferðisof­beldi. gul­ar og app­el­sínu­gul­ar mynd­ir til að gefa til kynna að þeir þekktu þolanda kyn­ferðisof­beld­is eða væru þolend­ur kyn­ferðisof­beld­is.
Einkennistákn #þöggunar.
Einkennistákn #þöggunar.

Hnattvæðing þöggunarbyltingarinnar

Helga Lind segir að vel sé hægt að tala um hnattvæðingu þöggunarbyltingarinnar í þessu samhengi. „Persónulega hef ég mikið verið í alþjóðavinnu og verið búsett erlendis og ég sé að fólk er að átta sig og er núna fyrst að þora að skila skömminni,“ segir Helga Lind, sem er meðlimur í framkvæmdastjórn Evrópusamtaka stúdenta.

Helga Lind Mar, talsmaður Druslugöngunnar.
Helga Lind Mar, talsmaður Druslugöngunnar.

„Maður upplifir það að fólkið í Hollywood séu fyrst núna að upplifa að það megi standa upp og segja: „Fokkið ykkur“ við ofbeldismenn og að ofbeldismenn komist ekki upp með að þagga niður í manni lengur,“ segir Helga Lind. Að hennar mati eru allar byltingar af þessu tagi nauðsynlegar til að skapa öruggt svæði fyrir þolendur kynferðisofbeldi og kynferðislegrar áreitni til að stíga fram og segja sögu sína. „Allar byltingar eru stórar fyrir þá sem geta fengið að tala í fyrsta sinn.“

Öll tilvik nógu alvarleg

Byltingin sem nú stendur yfir, #metoo, er að vissu leyti víðtækari en byltingin #þöggun þar sem kynferðisleg áreitni fær jafn mikið vægi og kynferðisofbeldi. „Fyrri byltingar hafa snúið að þeim sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi en núna er að opnast fyrir fólki að það verður engin stelpa 16 ára án þess að hafa orðið fyrir einhvers konar kynferðislegri áreitni,“ segir Helga Lind.

Að hennar mati má greina ákveðið mynstur í umræðunni um #metoo á Íslandi þar sem sumar konur upplifa sem svo að þær hafi ekki lent í nógu alvarlegu atviki til að eiga rétt á að taka þátt í byltingunni. Það tengist því hvernig umræðan í samfélaginu hefur verið. „Við lærum að kynferðisleg áreitni sé eðlilegur hlutur og er kennt að bæla þetta niður. Svo þegar þessar byltingar koma upp og maður fer að grafa í sjálfum sér og vinna í því sem maður hefur sjálfur lent í koma kannski upp alls konar atvik sem hafa haft veruleg áhrif.“ Helga Lind segir að þessi efi skýrist af því að plássið í umræðunni hafi einfaldlega ekki til staðar. „Við höfum ekki leyft því að hafa áhrif eða koma því í orð af því að ef þú gerir það ertu að gera of mikið úr hlutunum.“ Þannig eigi það alls ekki að vera og allar konur eiga rétt á að taka þátt í byltingunni, kjósi þær svo.

Ekki nóg að tala um ofbeldið

Helga Lind hefur komið að skipulagningu Druslugöngunnar síðastliðin ár og segir hún meginmarkmið göngunnar, það er að losa þolend­ur und­an skömm­inni sem kyn­ferðis­legt ofbeldi skil­ur eft­ir sig og skila henni þangað sem hún á heima, hjá gerend­um, eiga vel við byltinguna sem nú stendur yfir.

Frá fimmtu druslugöngunni sem farin var árið 2015.
Frá fimmtu druslugöngunni sem farin var árið 2015. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Því fleiri konur sem stíga fram, því auðveldara verður það fyrir restina. Þess vegna kemur þetta í bylgjum. Þegar einhver byrjar finna fleiri styrkinn til að gera það líka og þannig smitar þetta út frá sér,“ segir Helga Lind og bætir við að þetta stef sé vel greinanlegt í máli kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. „Það er einhver sem byrjar og tugir kvenna hafa sömu sögu að segja.“ Þannig finna konur styrkinn til að segja frá og sjá einnig svart á hvítu að þær standa ekki einar. „Þetta virðist hafa verið vitneskja svo margra en það var enginn sem þorði að standa upp af því að það er ekki búið að búa til plássið fyrir það,“ segir Helga Lind.

#metoo byltingunni má lýsa sem viðbrögðum kvenna þeim fjölda ásak­ana …
#metoo byltingunni má lýsa sem viðbrögðum kvenna þeim fjölda ásak­ana á hend­ur kvik­mynda­fram­leiðand­an­um Har­vey Wein­stein um kyn­ferðis­brot sem hafa litið dags­ins ljós und­an­farið. AFP

Nú virðist sem plássið sé komið til að vera, en spurning er hvað þurfi að gerast í framhaldinu, bæði hér á landi sem úti í heimi?

„Við erum komin langt með að geta talað um ofbeldið. Nú þurfum við að finna leiðir til að uppræta það,“ segir Helga Lind. Að hennar mati þarf að ráðast í rót vandans. „Við lifum í heimi sem er mjög sýktur af kynbundnu ofbeldi en nú þurfum við að setjast saman við teikniborðið og finna leiðir til að uppræta það. Við erum komin á þann stað að það þýðir ekki bara að tala og tala um það, þetta er staðreynd og við vitum það öll. Við þurfum að fara í almennilegar aðgerðir.“








mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert