„Fólk hefur sýnt okkur mikla ást“

Joy Lucky, Mary og Sunday Iserien
Joy Lucky, Mary og Sunday Iserien mbl.is/Rax

Þakklæti er efst í huga níg­er­ísku hjónanna Sunday Iserien og Joy Lucky og dótt­ur þeirra Mary sem fengu dval­ar­leyfi af mannúðarástæðum hér á landi í morgun. Þakklætið með hlutskiptið fer ekki á milli mála enda brosa þau hringinn þegar þau hitta blaðamann og ljósmyndara á kaffihúsi í miðbænum nokkrum klukkustundum eftir að niðurstaðan lá fyrir.

„Við erum ákaflega hamingjusöm og þakklát. Við viljum þakka stjórnvöldum, þingmönnum, öllu samfélaginu sem hefur staðið þétt við bakið á okkur, konum, körlum og börnum sem  hafa stutt okkur með einum eða öðrum hætti,“ segir fjölskyldufaðirinn Sunday Iserien og brosir. Joy tekur í sama streng og bætir við að þeim þyki ákaflega dýrmætt að fá að koma fram í fjölmiðlum og þakka fyrir sig. Hún spennir greipar, þakkar guði fyrir gjöfina því „maður á að þakka guði fyrir allar gjafir í lífinu,“ segir hún og biður guð jafnframt um að blessa alla þá sem aðstoðuðu þau og fjölskyldur þeirra.

Þau vilja helst nefna alla á nafn og alls ekki gleyma neinum sem hafa liðsinnt þeim. Sunday tekur fram að hann sé ákaflega þakklátur fyrir störf lögmanns þeirra, Hall­dórs Þor­steins­sonar hdl. „Hann gaf okkur von og trú og stappaði í okkur stálinu og var alltaf tilbúinn að fara með málið lengra,“ segir Sunday. Guðmundur Karl Karlsson hefur einnig stutt fjölskylduna mikið

Dóttir þeirra mun alast upp í öryggi og fá góða menntun

„Við vildum fá tækifæri til að ala dóttur okkar upp í öruggu umhverfi og veita henni góða menntun. Við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið það tækifæri hér á landi,“ segir Sunday. Dóttir þeirra Mary situr á milli þeirra, róleg en örlítið feimin á kaffihúsi í miðbænum. Brosið nær til augnanna þegar þjóninn færir henni kók í gleri sem minnir í senn á að stundum þarf lítið til að gleðja 8 ára gamalt  barn.  

Mary gengur í skóla hér á landi og býr með fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ. Mary vill ekki mikið spjalla við blaðamann en spurð út í líðan og skólagöngu hennar hér greina foreldrar hennar frá því að hún sé mjög hamingjusöm og ánægð í skólanum. Hins vegar hefur óvissan sem hefur ríkt um hvort fjölskyldan fái dvalarleyfi eða ekki hér á landi haft áhrif á líðan hennar.

„Hún spurði oft hvort hún gæti haldið áfram að vera í skóla á Íslandi,“ segir faðir hennar og bætir við að það sé nákvæmlega það sem hún vill því henni finnst hún vera örugg. Hún hefur verið á flótta allt sitt líf. Móðir hennar Joy var fórnarlamb mansals á Ítal­íu, þar sem þau dvöldu áður en þau komu hingað, en faðir henn­ar flúði póli­tísk­ar of­sókn­ir í Níg­er­íu.   

Orðlaus yfir stuðningi og ást 

Joy segir ómetanlegt að finna allan velviljann og stuðninginn sem þau hafi fundið í sinn garð hér á landi. Hún nefnir sérstaklega mótmælin sem efnt var til til stuðnings þeim og af­göngsku feðgin­unum Abra­him og Hanyie Maleki í byrjun september. Sol­ar­is – hjálp­ar­sam­taka fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólks á Íslandi stóðu fyrir þeim. „Ég var orðlaus yfir þeim stuðningi,“ segir Joy. Hún nefnir einnig Hanyie og vonar innilega að hún fái að upplifa það sama og dóttir hennar að fá tækifæri til að búa við öryggi hér á landi. 

Fjölmargir hafa komið að máli við Joy úti á götu og sýnt þeim stuðning. „Það er dýrmætt,“ segir hún. Margir hafa sett sig í samband við hana og vilja kynnast henni og fjölskyldunni. „Það er æðislegt. Ég er mjög opin og vil endilega halda áfram að kynnast fólki,“ segir Joy og bætir við að fólk hafi fært dóttur hennar föt að gjöf, fólk sem hún þekkir ekkert en er ákaflega þakklát fyrir. „Fólk hefur sýnt okkur svo mikla ást í verki,“ segir Joy. Hún vísar meðal annars til þess að fólk sem þau þekki ekkert hafi stutt þau fjárhagslega og aðstoðað þau meðal annars við fatakaup.   

Fjölskyldan er ánægð með niðurstöðu sinna mála.
Fjölskyldan er ánægð með niðurstöðu sinna mála. mbl.is/Rax

Íslenska „systirin“ Freyja ómetanleg

Joy vill alls ekki gleyma að þakka neinum. „Ég verð líka að þakka systur minni Freyju. Hún er mér svo kær og mikið meira en vinkona þess vegna kalla ég hana systur mína,“ segir Joy og ljómar. Sunday grípur orðið og segist þakklátur fyrir að hafa eignast íslenska fjölskyldu hér á landi en það er vinnuveitandi hans og eiginkona hans. „Ég er eins og sonur þeirra,“ segir Sunday sem bendir á að þau hafi stutt hann með ráðum og dáð til að mynda hafi þau bæði orðið mjög vonsvikin þegar vísa átti fjölskyldunni úr landinu fyrir skemmstu. Þau hafi meðal annars skrifað Útlendingastofnun bréf þar sem þau mótmæltu brottvísun þeirra.

Spurð hvort það komi til greina að flytja aftur til Nígeríu eftir einhvern tíma fara bæði að hlæja og þvertaka fyrir það. „Við erum Íslendingar og ætlum að alltaf að eiga heima hér,“ segja þau bæði nánast í kór.   

Næstu skref hjá fjölskyldunni eru að leita sér að íbúð, halda áfram að kynnast landi og þjóð, læra íslensku og vinna. Sunday hefur unnið hjá sama byggingarfyrirtækinu í dágóðan tíma en Joy langar helst að vinna með börnum því þau hafa hjálpað henni mikið.     

„Við erum Íslendingar og ætlum að alltaf að eiga heima …
„Við erum Íslendingar og ætlum að alltaf að eiga heima hér,“ segir fjölskyldan frá Nígeríu. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert