Vegum víða lokað vegna veðurs

Rauðir vegir eru ófærir en veður er víða slæmt á …
Rauðir vegir eru ófærir en veður er víða slæmt á Norðausturlandi. Ljósmynd/Vegagerðin

Þjóðvegur 1 er lokaður um Skeiðarársand, frá Lómagnúpi að Jökulsárlóni. Einnig eru Mývatns- og Möðrudalsöræfi lokuð og þá er óvissustig á Flateyrarvegi og í Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Líkur eru á því að ekki verði unnt að opna fyrir umferð um Skeiðarársand og Öræfasveit fyrr en hugsanlega um miðjan dag á morgun. Í fyrramálið er jafnframt reiknað með því að lokunarsvæði muni ná allt austur að Höfn. Takist að opna á morgun er engu að síður reiknað með lokunum aftur á fimmtudagskvöld og þá einkum frá Jökulsárlóni og austur fyrir Höfn.

Búist er við því að grípa verði til lokana á hringvegi frá Markarfljóti að Vík frá því seint í kvöld og fram á morgundaginn.

Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru nú lokuð, ekki eru líkur á því að unnt verði að opna næsta sólarhringinn. Enn fremur er búist er við víðtækum lokunum vega á Norður- og Austurlandi strax í fyrramálið og síðdegis á fimmtudag einnig á Vestfjörðum.

Vísbendingar eru um að ekki verði unnt að hefja hreinsun heiðarvega og langleiða á Norður- og Austurlandi fyrr en á laugardagsmorgun, en líklega fyrr á Vestfjörðum.

Færð og aðstæður

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er mjög víða á Suðurlandi. Skafrenningur er á fjallvegum.

Á Vesturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og eitthvað um éljagang á vegum. Frekar hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og éljagangur eða skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Kleifarheiði. Ófært er um Klettsháls. Flughálka og éljagangur er á Innstrandavegi.

Á Norðurlandi er þæfingsfærð á Öxnadalsheiði en hálka eða snjóþekja og éljagangur á öðrum leiðum.

Á Austurlandi er stórhríð og þungfært á Fjarðarheiði og mjög hvasst milli Neskaupstaðs og ganga. Víða er snjóþekja eða hálka á vegum og skafrenningur eða éljagangur.

Hálka er með suðausturströndinni og nokkuð hvasst. Óveður er í Öræfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert