Opna ekki aftur fyrir 1. desember

Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zústia.
Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zústia. Ljósmynd/Aðsend

Zúistar hyggjast ekki opna aftur fyrir endurgreiðslu sóknargjalda áður en frestur til að skipta um trúfélag, vegna sóknargjalda næsta árs, rennur út. Þetta má lesa úr svari Ágústs Arnars Ágústssonar, forstöðumanns trúfélagsins Zuism á Íslandi. Hann segir „ólíklegt að niðurstaða um að opna aftur komi fyrir 1. des.“

Zúistar greiddu á dögunum þeim sóknarbörnum trúfélagsins sem um sóttu um endurgreiðslu sóknargjalda síðustu tveggja ára. Fram hefur komið að félagið hafi haft úr um 50 milljónum króna að spila áður en til þeirrar endurgreiðslu kom. Ágúst hefur ekki viljað gefa út hversu margir fengu endurgreitt en eftir því sem mbl.is kemst næst virðist sem margir félagsmenn hafi farið á mis við umsóknina. Ágúst hefur sagt að til standi að styrkja góð málefni með myndarlegum hætti og opna fyrir umsóknir um náms- og skólabókastyrki. Mbl.is greindi frá því á dögunum að félagið hafi styrkt Barnaspítala hringsins um 1,1 milljón króna.

Segist vinna allt í sjálfboðastarfi

Ágúst, sem staddur er erlendis, sagði við mbl.is 16. ágúst að mjög líklegt væri að aftur yrði opnað fyrir umsóknir, í ljósi þess hversu margir fóru á mis við umsóknarferlið. „Það er mjög lík­legt að svo verði,“ sagði hann.

Hann segir í svari við fyrirspurn mbl að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um hvort opnað verði aftur fyrir umsóknir um endurgreiðslu sóknargjalda síðustu tveggja ára. Það virðist þó ljóst að svo verði ekki áður en landsmenn geta gert upp við sig hvaða trúfélagi þeir vilja tilheyra en skráning einstaklings í trúfélag 1. desember ræður því hvert sóknargjöldin renna.

„Félagið er að einbeita sér að öðrum verkefnum þessa stundina og því tel ég ólíklegt að niðurstaða um að opna aftur komi fyrir 1. des. Óska ég eftir þolinmæði varðandi allar endurgreiðslur þar sem ég vill vinna þetta starf af mikilli vandvirkni. Ég vill benda á það að endurgreiðslur munu halda áfram og þeir sem skrá sig í félagið fyrir 1. des geta ráðstafa sóknargjöldunum sínum fyrir árið 2018,“ segir hann í svarinu. Ekki hefur fengist upp gefið hvaða „fagaðili“ hafi annaðist endurgreiðsluna fyrir Zuism.

Hann segir að öll vinna fyrir trúfélagið sé unnin í sjálfboðastarfi, sem unnið sé eftir vinnutíma. Því gangi hlutirnir stundum hægar fyrir sig. „Félagið er núna að einbeita sér að kynna félagið og halda uppi starfsemi svo að gjörningar eins og endurgreiðslurnar séu mögulegar,“ segir hann.

Sendu auglýsingu inn á heimili

Zúistar sendu í vikunni auglýsingu inn á mörg heimili á höfuðborgarsvæðinu, þar sem skorað er á fólk að skrá sig í trúfélagið. „Skráðu þig í Zuism fyrir 1. desember 2017 og fáðu sóknargjöldin endurgreidd 2018. Zuism hefur þegar endurgreitt sóknargjöld seinustu tveggja ára til félagsmanna sinna,“ segir meðal annars í auglýsingunni. Þar kemur líka fram að hægt sé að rástafa endurgreiðslunni til góðgerðarmála. „Zuism hefur þegar styrkt verðug málefni eins og Barnaspítala hringsins og UNICEF. Félagsmenn sem stunda nám geta sótt um náms- og bókastyrk.“ Þá segir að Zuism sé eina trúfélagið sem leyfi félagsmönnum að ráðstafa sóknargjöldunum sínum sjálfir.

Ágúst vill ekki svara því hvað auglýsingin, sem send var inn á mörg heimili, hafi kostað. „Eins og fram hefur komið er félagið í kynningarherferð og er þetta hluti af kynningar- og markaðsstarfi eins og allar stofnanir og fyrirtæki eru með. Við fengum mjög gott tilboð í dreifingu og vinnu á þessari auglýsingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert