Andlát: Axel Gíslason forstjóri

Axel Gíslason
Axel Gíslason

Axel Gíslason, fyrrverandi, forstjóri Vátryggingafélags Íslands – VÍS, lést síðastliðinn laugardag á hjúkrunarheimilinu Ísafold. Hann var 72 ára að aldri.

Axel var fæddur í Washington í Bandaríkjunum 1. júlí 1945. Foreldrar hans voru Sólveig Axelsdóttir húsmóðir og Gísli Konráðsson, síðar framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa.

Hann ólst upp á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá MA, tók fyrrihlutapróf í verkfræði við Háskóla Íslands og meistaraprófi í byggingaverkfræði frá verkfræðiháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1971. Fyrsta árið eftir útskrift var hann ráðgefandi verkfræðingur í Kaupmannahöfn. Hann réði sig síðan til starfa hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga og dótturfyrirtækjum, var aðstoðarframkvæmdastjóri iðnaðardeildar á Akureyri og hjá Iceland Products Inc. í Harrisburg. Hann var framkvæmdastjóri skipulags- og fræðsludeildar SÍS og síðar skipadeildar í rúm átta ár. Aðstoðarforstjóri SÍS um tíma eða þar til hann var ráðinn forstjóri Samvinnutrygginga 1. janúar 1989 og síðar forstjóri Vátryggingafélags Íslands hf. – VÍS sem varð til með sameiningu Samvinnutrygginga og Brunabótafélags Íslands. Seinna bættist Líftryggingafélag Íslands við. Því starfi gegndi hann til ársins 2002 og var eftir það framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga og stjórnarformaður VÍS.

Axel var virkur félagi í Rótarýklúbbnum Görðum og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum hérlendis og erlendis.

Eftirlifandi eiginkona hans er Hallfríður Konráðsdóttir. Axel lætur eftir sig þrjú börn, Björn, Sól og Dóru Björgu, og sex barnabörn.

Útför Axels fer fram frá Vídalínskirkju 18. desember nk. kl. 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert