Árið hlýtt og hagstætt

Árið 2017 var það fimmta hlýjasta frá upphafi mælinga á …
Árið 2017 var það fimmta hlýjasta frá upphafi mælinga á Akureyri Skapti Hallgrímsson

Árið 2017 var hlýtt og tíð hagstæð. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofunnar á tíðarfari ársins 2017, sem gefin var út í morgun. Febrúar og maí voru óvenjuhlýir og sömu sögu er að segja um haustið, sem var milt. Nýtt septemberhitamet var sett á Egilstaðaflugvelli er hitinn mældist 26,4 stig á fyrsta degi mánaðarins.

Meðalhiti í Reykjavík var 5,5 stig og er það 1,2 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990, en í meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig og er árið það fimmta hlýjasta frá upphafi mælinga. Þá var árið hið næsthlýjasta frá upphafi mælinga á Egilsstöðum en meðalhiti þar mældist 4,8 stig. Á landsvísu var hitinn 1,4 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990, en 0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hæsti hiti ársins mældist 27,7 stig á Végeirsstöðum í Fnjóskadal þann 25. júlí en mest frost í Svartárkoti þann 29. desember. Í Reykjavík mældist hiti hæstur fimmtudginn 27. júlí, en lægstur -8,5 stig 11. desember. Á Akureyri mældist hiti hæstur 24,1 stig þann 22. júlí, en lægstur 29. desember, -17,9 stig.

Ekki snjóþyngra í borginni í 80 ár

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 59, og er það einum fleiri en meðaltal áranna 1971 til 2000. Mestu munar um 26. febrúar, en þann dag kyngdi snjó niður í höfuðborginni og mældist snjódýpt 51 cm. Aðeins einu sinni hefur dýpri snjór mælst í Reykjavík en það voru 55 cm árið 1937.

Síðastliðinn vetur var annars óvenju snjóléttur á Akureyri. Alhvítir dagar ársins voru 50 og hafa aldrei verið eins fáir frá því mælingar hófust 1924. Meðaltal áranna 1971 til 2000 er 102 dagar.

Sólskinsstundir í Reykjavík voru 1335, 91 færri en meðaltal síðustu tíu ára. Þá voru sólarstundir 933 á Akureyri, 137 færri en meðaltal síðasta áratugar.

Þá var vindhraði á landsvísu undir meðallagi. 

Fannfergi setti samgöngur úr skorðum í Reykjavík í lok febrúar.
Fannfergi setti samgöngur úr skorðum í Reykjavík í lok febrúar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert