Töluvert um hálkuslys

Margir hafa leitað á slysadeild vegna hálkuslysa.
Margir hafa leitað á slysadeild vegna hálkuslysa. mbl.is/Eggert

Töluvert hefur verið um það að fólk hafi leitað á slysadeild Landspítala vegna hálkuslysa. Um 12 manns höfðu leitað á deildina þegar mbl.is náði tali af Bryndísi Guðjónsdóttur, deildarstjóra bráða- og göngudeildar, en fór fjölgandi.

„Já, það er búinn að vera þannig dagur í dag,“ segir Bryndís aðspurð hvort margir hafi komið á deildina vegna hálkuslysa. Hún segist ekki hafa heyrt af neinum með alvarlega áverka, þetta séu helst útlimaáverkar og höfuðhögg sem hrjái fólk. „Þetta geta verið leiðindaáverkar sem geta krafist inngripa,“ segir hún.

Opinberir aðilar salti fyrir utan

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varaði við hálku í morgun og segir Bryndís mjög gott að slíkt sé gert. Einnig segir hún mikilvægt að opinberir aðilar taki við sér og salti fyrir utan hjá sér. „Til dæmis um jólin þá voru margir að koma til okkar frá kirkjugörðum, það var bara eitt gler þar. Það þarf að huga að svona stöðum,“ segir hún að lokum.

Erfitt getur reynst að fóta sig í mikilli hálku.
Erfitt getur reynst að fóta sig í mikilli hálku. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert