„Mjög miður“ hvernig reglugerðin er túlkuð

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, er ósátt með hvernig reglugerð hennar …
Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, er ósátt með hvernig reglugerð hennar er túlkuð af heilbrigðiseftirlitsnefndum. mbl.is/Hanna

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, sem innleiddi í fyrra reglugerð til þess að leyfa veitingastöðum að bjóða hunda og ketti velkomna, segir það vera sér mjög mikil vonbrigði að heilbrigðisnefndir „kjósi að túlka reglugerðina á þann hátt að það sé nánast ómögulegt“ fyrir veitingahúsarekendur að leyfa hunda eða ketti inni á sínum stöðum.

„Það er alveg ljóst að við vorum að setja reglugerð fyrir heilbrigðiseftirlitin til þess að vinna með sem hefði það að markmiði að veitingahúsaeigendur og staðarhaldarar mættu ráða þessu sjálfir,“ segir Björt í samtali við mbl.is, en í gær fjölluðum við um reynslu veitinga- og kaffihúsaeigenda af því að reyna að uppfylla þessa reglugerð.

Björt segir ljóst að embættismenn innan heilbrigðisnefndanna ætli að „virða að vettugi“ markmið reglugerðarinnar og taka þessar ákvarðanir sjálf í staðinn.

„Það er mjög miður og verður að skoðast mjög ítarlega hvernig heilbrigðiseftirlitið gengur fram þarna,“ segir Björt.

En þarf ekki bara að breyta reglugerðinni eitthvað? spyr þá blaðamaður og Björt svarar strax með afar ákveðinni neitun.

„Reglugerðin er alveg skýr. Hún er mjög skýr og það þarf ekkert að breyta henni, en það þarf eitthvað að vinna með viðhorf þeirra sem eiga að vinna með hana. Þar liggur hundurinn grafinn.“

Björt segir afstöðu heilbrigðiseftirlitsins ekki koma sér á óvart, þar sem reglugerðin hafi mætt andstöðu í umsögnum heilbrigðisnefnda.

„Ég hélt að fólk myndi virða þau lög og reglur sem eru lagðar fram af kjörnum fulltrúum, mér í þessu tilfelli, sem er kjörin af fólkinu í landinu og að fólk í þessum embættum myndi virða það, en það kom fram í umsögnum frá heilbrigðisnefndunum að þau væru ekki sátt með þetta og ég óttast að þau séu að láta það viðhorf sitt ráða í þessu,“ segir Björt sem leggur til að málið verði tekið til skoðunar innan síns gamla ráðuneytis.

Ekki náðist í Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert