Gera ráð fyrir Fossvogslaug í skipulagi

Innan þessa afmarkaða hrings er gert ráð fyrir að Fossvoglaug …
Innan þessa afmarkaða hrings er gert ráð fyrir að Fossvoglaug verði byggð upp. Mynd/Skjáskot af vef Reykjavíkurborgar

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að gera ráð fyrir sundlaug við deiliskipulag í Fossvogsdal, nálægt Fossvogsskóla og Snælandsskóla um miðbik dalsins. Samþykkt var að efna skuli til hönnunarsamkeppni, sem Reykjavíkurborg og Kópavogsbær standi að í sameiningu.

Borgarstjóri ræddi Fossvogslaugina og framtíðarstaðsetningu hennar á íbúafundi í Háaleiti og Bústaðahverfi í gærkvöldi. Þar sagði hann að það sem væri „langviðkvæmast“ við uppbyggingu sundlaugarinnar í miðjum dalnum væru umferðarmálin.

„Það vilja allir sundlaug en það eru margir hræddir um að það aukist umferð um göturnar þeirra eða nágrenni,“ sagði Dagur. Því hefði starfshópur um sundlaugina, sem skilaði af sér niðurstöðum árið 2013, lagt til að reynt yrði að fara í þetta þannig að þetta yrði „svolítið öðruvísi laug“ og að sundlaugin yrði hluti af útivistarsvæðinu.

Á íbúafundinum sagði borgarstjóri að bílastæði verði fyrir fatlað fólk og einnig þá sem eru „fótafúnir“ en þeim verði að öðru leyti stillt í hóf og gert sé ráð fyrir að flestir íbúar í Fossvogsdal sem nýti sér sundlaugina komi gangandi eða hjólandi að lauginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert