Blúsinn lifir góðu lífi

Tónleikar voru haldnir á Skólavörðustíg að lokinni Blús-skrúðgöngu
Tónleikar voru haldnir á Skólavörðustíg að lokinni Blús-skrúðgöngu mbl.is/Kristinn Magnússon

Blúshátíð í Reykjavík 2018 var sett í dag með Blúsdegi í miðborg Reykjavíkur. Blússamfélagið á Íslandi fylkti liði og gekk í skrúðgöngu niður Skólavörðustíg, en lúðrasveitin Svanur var með í för og lék glaðlegan jarðarfararblús frá New Orleans. Fjöldi fólks dansaði við tónlistina á leið niður Skólavörðustíginn. Félagar úr fornbílaklúbbnum Krúser tóku einnig þátt.

Lúðrasveitin Svanur lék jarðarfararblús frá New Orleans í skrúðgöngu Blúsdagsins …
Lúðrasveitin Svanur lék jarðarfararblús frá New Orleans í skrúðgöngu Blúsdagsins niður Skólavörðustíg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar niður var komið voru haldnir tónleikar og boðið upp á grillmat, pylsur og kjúklingavængi. Tryggvi Hübner, gítarleikari, var valinn heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur. Klukkan fjögur hófust síðan tónleikar í Borgarbókasafni Reykjavíkur í Grófinni.

Markmiðið að lífga upp á daufa dymbilviku

Þorsteinn G. Gunnarsson, talsmaður Blúsfélags Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að hátíðin hafi farið ljómandi vel af stað.

„Á tónleikana í vikunni fáum við til okkar heimsþekkta blústónlistarmenn og svo hefur sú hefð skapast að á lokakvöldinu leikur rjóminn af íslenskum blústónlistarmönnum. Fyrir hlé verður þar hljómsveit þar sem heiðursfélaginn, Tryggvi Hübner, er tónlistarstjóri. Ansi margir sem þar verða voru í hljómsveitinni EIK í gamladaga og þeir munu taka nokkur lög af einni frægustu rokkplötu Íslandssögunnar, sem er Hríslan og straumurinn,“ segir Þorsteinn.

Félagar í Krúser klúbbnum leyfðu gestum hátíðarinnar að virða fyrir …
Félagar í Krúser klúbbnum leyfðu gestum hátíðarinnar að virða fyrir sér fornbíla sína. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blúshátíð er nú haldin í fimmtánda sinn og hefur ávallt verið haldin í dymbilviku. Þorsteinn segir að tilgangurinn hafi í upphafi verið að lífga upp á annars daufa viku og hefur hefðin haldist óslitið uppfrá því.

Þorsteinn segir blúsinn lifa góðu lífi. „Blúsinn er stærsta „underground“- tónlistarstefna í heimi. Hann lifir því hann snýst um spuna. Þó menn séu oft að spila „standarda“ og lög sem voru samin fyrir mörgum árum, þá er flutningurinn alltaf nýr. Það sem gerir blúsinn svo dásamlegan er tjáningin,“ segir hann.

Vegleg dagskrá framundan 

Hátíðin sjálf hefst af fullum krafti á þriðjudag með óslitinni tónlistarveislu fram á fimmtudag. Á þriðjudag verða stórtónleikar haldnir á Hilton Reykjavík Nordica, en fyrsta hljómsveit á svið er blúsaðasta hljómsveit Músíktilrauna árið 2018. Einnig leika á þriðjudag Ina forsman, Laura Chavez auk Begga Smára og Nick Jameson.

Ungir sem aldnir fylgdust með tónlistarmönnunum í dag. Margir fóru …
Ungir sem aldnir fylgdust með tónlistarmönnunum í dag. Margir fóru alla leið og settu upp blús-sólgleraugu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á miðvikudag leika Larry McCray og The Blue Ice Band, Langi Seli og Skuggarnir auk Lúðrasveitarinnar Svans.

Á skírdag lýkur Blúshátíð með enn einum stórtónleikunum á Hótel Reykjavík Nordica, en þar leika helstu blústónlistarmenn Íslands, þ.á.m. áðurnefnd hljómsveit Tryggva Hübner sem skipuð er Haraldi Þorsteinssyni á bassa, Ásgeiri Óskarssyni á trommum og Manúsi Jóhanni Ragnarssyni á hljómborði. Síðar sama kvöld bætast fleiri flytjendur í hópinni, Björgvin Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Davíð Þór Jónsson, Guðmundur Pétursson, Óskar Logi, Stefanía Svavarsdóttir, Halldór Bragason, Róbert Þórhallson o.fl.

Ungliðarnir fá tækifæri með heimsþekktum tónlistarmönnum

Að loknum tónleikum á fimmtudag verður Klúbbur Blúshátíðar opnaður í rými fyrir utan stóra salinn á Hilton Reykjavík Nordica, en þar gerast töfrar að sögn Þorsteins.

„Eftir tónleikana verður búinn til Klúbbur og eftir stóru tónleikana munu einhverjir byrja að spila þar. Þar skapast oft ævintýraleg stemning sem stendur fram á rauðanótt og jafnvel fram á morgun. Þar birtast oft stóru stjörnurnar okkar sem spiluðu á hátíðinni og spila með ungum nemendum úr tónlistarskóla FÍH til dæmis. Ungliðarnir okkar í músík fá oft tækifæri þarna til að spila með heimsþekktum tónlistarmönnum og öðlast fyrir vikið reynslu og verða betri tónlistarmenn en ella. Þetta eflir tónlistarlífið hér,“ segir Þorsteinn.



mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert