Leiðandi í mælingum framfara

Fulltrúar Social Progress Imperative (SPI) og Kópavogsbæjar stilltu sér upp …
Fulltrúar Social Progress Imperative (SPI) og Kópavogsbæjar stilltu sér upp fyrir myndatöku eftir kynningu á úttekt SPI á Kópavogsbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta verkefni er bara byrjunin. Social Progress Imperative (SPI) hefur talað fyrir vísitölu félagslegra framfara (VFF) um allan heim. Ástæðan fyrir því er einföld – við erum þeirrar skoðunar að dugmikið fólk geti með góðu gagnasafni skipt sköpum fyrir samfélagið,“ sagði Michael Green, forstjóri stofnunarinnar SPI, á fundi sem haldinn var nýverið í Kópavogi.

Tilefni fundarins var að kynna niðurstöður greiningar sem SPI á Íslandi vann fyrir Kópavogsbæ með aðstoð frá SPI í Lundúnum. Þar er félagsleg framþróun í Kópavogi kortlögð samkvæmt aðferðum sem þróaðar hafa verið hjá Social Progress Imperative, en þær segja til um hæfni samfélaga til að mæta grunnþörfum borgaranna, stuðla að og viðhalda lífsgæðum þeirra og veita einstaklingum tækifæri til betra lífs. VFF endurspeglar um leið þá þætti sem skipta máli og eru samanburðarhæfir á milli landa, svæða og borga.

Það er hins vegar vandasamt verk að mæla félagslegar framfarir, en um er að ræða margþætt verkefni sem krefst þess að þau viðmið sem notuð eru séu bæði skýr og þekkt.

„Hér áður fyrr þurftum við að reiða okkur á ónákvæmar efnahagslegar mælingar á vellíðan okkar. En það sem vísitala félagslegra framfara gerir er að veita okkur færi á að sjá hin raunverulegu gæði lífs og greina þannig veikleika og styrki samfélagsins,“ sagði Green.

„Kortlagning félagslegra framfara (Social Progress Portrait, SPP) endurspeglar stöðuna í Kópavogi og lífsgæði fólks. Þessi leið sýnir okkur hvernig hægt er að skoða önnur minni svæði um heim allan með þessari aðferðafræði,“ sagði Green.

Fjölmargir vísar og víddir

Skorkort fyrir Kópavog í greiningu SPI (SPP) á Íslandi byggist á 56 breytum sem skiptast niður á þá þætti og víddir sem mælikvarðinn byggist á. Eru víddirnar þrjár talsins, þ.e. grunnþarfir einstaklingsins, grunnstoðir velferðar og tækifæri einstaklingsins til að bæta líf sitt.

Michael Green, forstjóri SPI, var meðal þeirra sem fluttu erindi,en …
Michael Green, forstjóri SPI, var meðal þeirra sem fluttu erindi,en hann sér mikil tækifæri í notkun vísitölu félagslegra framfara (VFF). mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt niðurstöðu greiningar virðast grunnstoðir velferðar „traustar í Kópavogi og gildir það um flest atriði.“ Þegar litið er til tækifæra íbúa í Kópavogi „koma flestir mælikvarðar mjög vel út, með örfáum undantekningum.“ Þegar kemur að grunnþörfum virðist hins vegar hægt að bæta ýmislegt. „Hafa verður í huga að kröfur sem gerðar eru til grunnþarfa eru miklar, en engu að síður er ljóst að hvað varðar almennt heilbrigði og húsnæðismál þá er tækifæri til að gera betur,“ segir í niðurstöðum úttektarinnar.

Ármann Kr. Ólafsson er bæjarstjóri í Kópavogi. Hann segir niðurstöðurnar geta nýst þeim vel sem stjórntæki. „Við erum, með því að mæla sveitarfélag með þessum hætti, algerir frumkvöðlar á heimsvísu. Þessi mæling er í raun ekki einkunn heldur segir hvar við stöndum miðað við mælikvarðana og hvar finna megi sóknarfæri. Að því leytinu til mun þetta nýtast okkur sem stjórntæki,“ segir Ármann Kr. í samtali við Morgunblaðið.

„Markmiðið með þessu er að vera ekki feimin við að draga fram tölur og gera sér grein fyrir stöðunni svo hægt sé að bæta árangur,“ segir Ármann og bætir við að mikilvægt sé að önnur sveitarfélög geri einnig sambærilega úttekt. „Ég myndi vilja sjá Samband íslenskra sveitarfélaga fara í saumana á þessu verkefni, sjá hvernig það var unnið og hvetja önnur sveitarfélög til þátttöku. Þannig geta sveitarfélög landsins borið sig saman,“ segir hann.

Theódóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs, segir mikla áherslu vera lagða á góð vinnubrögð í Kópavogi og að módel VFF eigi eftir að nýtast vel til framtíðar.

„Helst viljum við auðvitað getað borið okkur saman við önnur sveitarfélög frá ári til árs. En það væri einnig mjög gagnlegt að bera sig saman við sveitarfélög í öðrum löndum. Við bindum því miklar vonir við að önnur sveitarfélög taki þetta upp,“ segir hún. „Þetta eru raunverulegir mælikvarðar og niðurstaðan er lögð á borð fyrir íbúa svo þeir geti fylgst með verkum kjörinna fulltrúa og sveitarfélagsins alls. VFF er mjög góður grunnur til að hefja umræðu um þá hluti sem þörf er á að bæta,“ segir hún enn fremur.

Samstarfið afar ánægjulegt

Rósbjörg Jónsdóttir er fulltrúi Social Progress Imperative á Íslandi. Hún segist afar ánægð með þá miklu vinnu sem liggur að baki úttektarinnar og að samstarfið við sérfræðinga Kópavogsbæjar hafi verið einkar ánægjulegt, en frumkvæðið að þessari úttekt og drifkrafturinn kemur frá verkefnastjóra stefnumótunar bæjarfélagsins.

Aðspurð segir hún það sífellt verða mikilvægara að sveitarfélög geti borið sig saman við önnur sveitarfélög og um leið fylgst með eigin árangri á milli ára. „Við munum nú á næstu vikum og mánuðum kynna þetta fyrir öðrum og vona ég að sem flestir taki þátt,“ segir hún. Frekari upplýsingar um aðferðafræðina og SPI á Íslandi má finna á www.socialprogress.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert