„Gríðarlegur áfangasigur“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. mbl.is/Hari

„Ég er mjög ánægð með þetta. Það er gleðidagur að hafa náð þessu loksins,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, um samþykkt NPA-frumvarpsins svokallaða. 

Þuríður segir að réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs aukist gríðarlega með frumvarpinu. Hún segir að það hafi verið nokkuð vel unnið og að aldrei áður hafi verið leitað eins mikils samráðs við fatlaða og við gerð þess. 

„Það er mikið mannréttindamál sem þarna fór í gegn,“ segir hún og bætir við: „Við erum búin að vera sjö ár að ná þessu lokatakmarki. Þetta er gríðarlegur áfangasigur.“

Þuríður vill árétta að sveitarstjórnir hafi fullt frelsi til að gera eins marga samninga um notendastýrða persónulega aðstoð og hægt er. 

Í lok síðasta árs samþykkti Alþingi breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Þar með var heimilað að framlengja samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem gerðir höfðu verið frá 2017 til ársloka 2018, eða fram að gildistöku laga þar sem kveðið yrði á um réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert