Um 30 fíkniefnamál á Secret Solstice

mbl.is/Eggert

Í gærkvöldi og nótt hafði lögreglan afskipti af þrjátíu manns í Laugardalnum vegna vörslu fíkniefna en í dalnum fer nú fram tónlistarhátíðin Secret Solstice. Þá komu einnig upp nokkur líkamsárásarmál og mál tengd ölvunarástandi á hátíðinni samkvæmt upplýsingum lögreglunnar.

Þá voru fjölmargir stöðvaðir grunaðir um ölvunar- eða fíkniefnaakstur. Um klukkan 21.30 í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp við Engjaveg þar sem sá sem olli tjóninu ók af vettvangi. Bíll hans var stöðvaður skömmu síðar en ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur, að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og akstur án réttinda en maðurinn hefur aldrei öðlast ökuréttindi.

Í nógu var að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt og voru 130 mál skráð í dagbók hennar á tólf klukkustunda tímabili frá 17 í gær og til 5 í morgun. Fangageymslurnar eru fullar en þar voru sautján manns vistaðir í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert