Tómas og Óskar nafngreindir í úrskurði

Ljósmynd frá barkaígræðslunni sem var undirstaða þeirra sex vísindagreina sem …
Ljósmynd frá barkaígræðslunni sem var undirstaða þeirra sex vísindagreina sem nú hafa verið dregnar tilbaka. Karolinska Institut

Í úrskurði Ole Petter Ottesen, rektors Karólínska háskólasjúkrahússins í Svíþjóð, eru tveir íslenskir læknar nafngreindir vegna aðkomu þeirra að plastbarkamálinu. Einn þeirra, Tómas Guðbjartsson, er sagður ábyrgur fyrir vísindalegu misferli og er hinn, Óskar Einarsson, sagður hafa vanrækt skyldu sína til þess að gera athugasemdir við áberandi rangfærslur í vísindagrein sem þeir báðir áttu aðild að.

38 læknar eru nafngreindir í úrskurðinum sem mbl.is hefur undir höndum, þar af eru sjö sagðir ábyrgir fyrir vísindalegu misferli. 31 læknir er sagður eiga þátt í málinu vegna framlags þeirra til sex vísindagreina sem um ræðir, en þó ekki á slíku stigi að það flokkist undir ábyrgð á vísindalegu misferli.

Rökstuðningur rektors er ítarlegur og telur 38 blaðsíður. Til umfjöllunar eru sex vísindagreinar sem birtar voru í vísindatímaritunum Lancet, Biomaterials, Journal of Biomedical Materials Research og Thoracic Surgery Clinics. Þessar greinar hafa nú allar verið dregnar til baka af yfirstjórn Karólínska.

Birtu grein sem áður var hafnað við ritrýni

Tveir íslenskir læknar eru nafngreindir í úrskurðinum. Tómas, sem er meðal þeirra sjö sem bera ábyrgð á vísindalegu misferli, og Óskar, sem vanrækti skyldu sína til þess að gera athugasemdir við rangfærslur í vísindagrein sem þeir báðir áttu aðild að.

Greinin sem um ræðir var birt í Lancet árið 2011 undir heitinu „Tracheobronchial transplantation with a stem-cell-seeded bioartificial nanocomposite: a proof-of-concept study“.

Í úrskurðinum segir um Óskar og Tómas að þeir tóku þátt í meðhöndlun umrædds sjúklings, fyrst og fremst á Íslandi, en Tómas tók þátt í uppskurði sjúklingsins á Karólínska háskólasjúkrahúsinu. Þeir eru sagðir hafa haft mikla innsýn í ástand sjúklingsins og að þeir samþykktu útgáfu vísindagreinarinnar í nóvember 2011 þar sem ástand sjúklingsins var gefið upp.

Áður en greinin birtist í Lancet hafði verið reynt að birta hana í vísindatímaritinu New England Journal of Medicine (NEJM). Við ritrýni voru gerðar athugasemdir við greinina og hafnaði NEJM greininni. Óskar var ekki í hópi þeirra sem skrifuðu undir vísindagreinina þegar hún var send NEJM, en bættist við áður en hún varð send til vísindatímaritsins Lancet.

Tómas er sagður hafa haft mikilvægari hlutverki að gegna en Óskar. Hans frásögn hefur byggt á að hann hafi reynt að koma á framfæri athugsemdum um ástand sjúklingsins í greininni, en að Paolo Macchiarini hafi strokað út þessi atriði undir þeim formerkjum þetta hafi tekið of mikið pláss. Einnig hefur Tómas haldið því fram að hann hafi ekki haft ástæðu til þess að halda að einhver siðferðisleg álitaefni hafi verið til staðar umfram það sem kom fram í greininni.

Hefði átt að krefjast umbóta

Við rannsókn plastbarkamálsins kemur fram að Tómas hafði frumkvæði að innlögn sjúklingsins í þeim tilgangi að minnka æxli hans með leysi. Seinna breytti Tómas tilvísun sinni til sænskra lækna með þeim hætti að ástand sjúklingsins virtist verra en raun bar vitni, að beiðni Paolo Macchiarini. Þar af leiðandi gat sjúklingurinn undirlagst barkaskipti, þrátt fyrir að slík aðgerð var óþekkt og hafði aldrei áður verið framkvæmd.

Karólínska getur ekki útilokað að hægt væri að halda sjúkdómi sjúklingsins í skefjum með hefðbundnum aðferðum. Í úrskurðinum segir að ekki var til staðar nægilega rökstudd ástæða til þess að skera sjúklingin upp.

Þá segir að þar sem Tómas hafi tilheyrt upphaflegum hóp sem stóð að umræddri vísindagrein bar honum skylda til þess að bregðast við þeim athugasemdum sem bárust við ritrýni greinarinnar hjá NEJM. Á þessum grundvelli er Tómas sagður ábyrgur fyrir vísindalegu misferli.

Óskar bætist hinsvegar í hóp höfunda að vísindagreininni eftir höfnun NEJM. Í úrskurðinum segir að hann hefði átt að gera athugasemdir við áberandi ranga umfjöllun um ástand sjúklingsins og er það sagt ámælisvert að slíkt var ekki gert, en það telst ekki á svo alvarlegu stigi að um sé að ræða vísindalegt misferli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert