Sagður ábyrgur fyrir vísindalegu misferli

Tómas Guðbjartsson, læknir, er einn þeirra sem rektorinn segir ábyrgann …
Tómas Guðbjartsson, læknir, er einn þeirra sem rektorinn segir ábyrgann fyrir vísindalegu misferli. mbl.is/RAX

Tómas Guðbjartsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landsspítalanum, er einn sjö einstaklinga sem rektor Karólínska háskólasjúkrahússins í Svíþjóð hefur úrskurðað ábyrga fyrir vísindalegu misferli í sambandi við rannsókn. Þetta staðfestir Peter Andréasson, fjölmiðlafulltrúi stofnunarinnar, í samtali við mbl.is.

Úrskurður rektors er vegna vísindagreina sem urðu til í sambandi við ígræðslu plastbarka í sjúklinga, sem var talinn byltingarkennd aðgerð. Það var læknirinn Paolo Macchiarini sem var leiðandi í þróun þessarar tegundar barkaígræðslu.

Falsaðar og brenglaðar lýsingar

Í dag var úrskurður rektorsins birtur á vef stofnunarinnar, en hann kemur í kjölfar þess að rannsakaðar hafa verið sex vísindagreinar sem þessir sjö einstaklingar komu að. Þessi úrskurður ógilti niðurstöðu fyrri rektors frá ágúst 2015, en málið var tekið til rannsóknar á ný í febrúar 2016.

Niðurstaða rannsóknar sýnir alvarlega ágalla í þeim upplýsingum sem lagðar voru fram í vísindagreinum læknanna. Þá segir að greinarnar innihaldi falsaðar og brenglaðar lýsingar er tengjast ástandi sjúklinga fyrir og eftir skurðaðgerðir.

Einnig er sagður skortur á læknisfræðilegum rökstuðningi fyrir því að láta sjúklinga undirgangast aðgerðir læknana. Þá eru gerðar siðferðislegar athugasemdir og bent á að ekki hafi legið fyrir upplýst samþykki sjúklings.

Meðal þeirra sem sagðir eru ábyrgir fyrir vísindalegu misferli er einnig einstaklingurinn sem uppljóstraði um aðferðir Macchiarini árið 2014.

Plastbarkamálið

Andemariam Teklesenbet Beyene lést árið 2014 eftir að hafa fengið barkaígræðslu á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Eftir andlátið vöknuðu ýmsar efasemdir um þá verkferla sem lágu að baki vísindarannsóknunum, sérstaklega vegna upplýsinga frá lækni sem átti aðild að rannsóknunum og uppljóstraði um bresti í starfsháttum læknanna.

Þá var Macchiarini meðal annars ákærður fyrir manndráp í Svíþjóð, en það mál var látið niður falla. Í desember í fyrra ákvað hinsvegar ríkissaksóknaraembætti Svíþjóðar að taka málið upp að nýju.

Tómas var sendur í leyfi í nóvember frá Landspítalanum, en sneri til baka til starfa um áramótin. Haft var samband við Stefán Hrafn Hagalín, upplýsingafulltrúa Landsspítalans, við vinnslu fréttarinnar. Hann vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is að svo stöddu.

mbl.is