„Ég gerði mitt allra besta“

Birta Líf með Brynjari Ara sem keppti í drengjaflokki 14-15 …
Birta Líf með Brynjari Ara sem keppti í drengjaflokki 14-15 ára á heimsleikunum í crossfit. Ljósmynd/Aðsend

„Íslensku dæturnar eru mínar helstu fyrirmyndir,“ segir Birta Líf Þórarinsdóttir, fimmtán ára crossfit-kappi sem keppti nú í ágúst á heimsleikunum í crossfit í aldurshópnum 14-15 ára. Alls kepptu þrjú íslensk ungmenni á leikunum en auk Birtu keppti Brynjar Ari Magnússon í hennar aldursflokki. Katla Björk Ketilsdóttir keppti svo í aldursflokknum fyrir ofan Brynjar og Birtu. 

Birta lenti í fjórtánda sæti í sínum flokki á leikunum og segist vera sátt með árangurinn þó að hún hafi vissulega viljað vera ofar á lista. Þó hefði hún ekki viljað gera neitt öðruvísi. „Ég gerði mitt allra besta og hefði ekki getað gert neitt betur. Þetta var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

Birta segir að áhuginn á crossfit hafi kviknað fyrir um einu og hálfu ári þegar vinur föður hennar bauð henni á fyrstu crossfit-æfinguna. „Mér fannst þetta mjög gaman og ég byrjaði strax að æfa.“

Birta á leikunum.
Birta á leikunum. Ljósmynd/Aðsend

Birta tók þátt í eins konar forkeppni fyrir undankeppni leikanna sem voru haldnir á síðasta ári og munaði litlu að hún hefði komist áfram í undankeppnina. „Þá fattaði ég hversu mikið mig langaði að komast á leikana.“

Hún reyndi svo aftur við leikana í ár og var tuttugasta og sjötta í röðinni af tvö hundruð keppendum sem komust í undankeppnina í ár. Þar var hún svo sextánda af þeim tuttugu keppendum sem komust alla leið á leikana.

„Áður en ég vissi að ég væri að fara á leikana var ég að æfa í unglingatímum í Crossfit Reykjavík. Þegar það voru svo um tveir og hálfur mánuður til stefnu fékk ég að vita að ég hefði komist inn og byrjaði þá í æfingadagskrá sem heitir „The Training Plan“. Dagskráin var sniðin eftir veikleikum og styrkleikum hjá mér. Það byrjaði bara með einni æfingu á dag og svo fór það að aukast smátt og smátt,“ segir Birta um undirbúninginn fyrir leikana.

Birta á leikunum.
Birta á leikunum. Ljósmynd/Aðsend

Þá hafi hún einnig einsett sér að borða hollt og sleppa öllu sælgæti.

Birta segir að skólinn hennar hafi verið mjög jákvæður í garð íþróttarinnar og fékk hún til dæmis að sleppa íþróttakennslu. Birta útskrifaðist úr grunnskóla í vor og segist hún hafa verið á þönum allan daginn meðan á kennslu stóð í vetur.

„Ég mætti í skólann 8:30-14, fór heim til að skila skóladótinu, fá mér að borða og sótti æfingadótið. Síðan tók ég strætó á crossfit-æfingu og svo aftur strætó upp í Garðabæ til þess að fara á fimleikaæfingu sem var frá 19 til 21. Pabbi sótti mig síðan á æfingu og þá fékk ég mér kvöldmat, fór í sturtu og síðan að sofa,“ segir Birta aðspurð hvernig samspil náms og íþrótta hafi verið í vetur.

Markmið Birtu fyrir íþróttina í framtíðinni eru skýr og setur hún stefnuna hátt. „Markmiðið er að keppa á leikunum næstu tvö árin því það eru seinustu árin mín í unglingaflokki. Svo er það bara að komast eins fljótt og hægt er inn á Evrópuleikana,“ segir þessi unga og efnilega íþróttakona, en Evrópuleikarnir eru ein af sex svæðisbundnum undankeppnum fyrir heimsleikana þar sem aðeins þeir færustu komast áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert