Taki aðstöðu nemenda til endurskoðunar

Áslandsskóli í Hafnarfirði. Mynd úr safni.
Áslandsskóli í Hafnarfirði. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Erindi Umboðsmanns barna um mataraðstöðu barna í Áslandsskóla verður tekið fyrir á næsta fundi skólaráðs Áslandsskóla. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Fanney Halldórsdóttur, sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnafjarðarbæjar.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, vakti í vikunni athygli á því á Facebook-síðu embættisins að engin viðbrögð hefðu enn borist vegna ábendingar sem hún hefði sent Hafnarfjarðarbæ síðasta vor vegna aðstæðna í skólamötuneyti  Áslandsskóla.

Ábend­ing­in var á þann veg að þeir nem­end­ur sem eru ekki í mat­ar­áskrift í skól­an­um fá ekki að sitja með fé­lög­um sín­um í mat­sal skól­ans í mat­ar­hlé­um. Þess í stað séu þeir látn­ir borða nestið sitt á ann­arri hæð skól­ans.

„Umboðsmaður barna hef­ur átt sam­skipti vegna máls­ins við skóla­stjóra Áslands­skóla, skóla­skrif­stofu Hafn­ar­fjarðarbæj­ar og frá­far­andi bæj­ar­stjóra Hafn­ar­fjarðar þar sem gerðar voru at­huga­semd­ir við fram­an­greint fyr­ir­komu­lag,“ seg­ir í bréf­inu, en umboðsmaður skorar á hlutaðeig­end­ur að bæta úr stöðunni sem allra fyrst.

Taki aðstöðu nemenda til endurskoðunar

Í svari Fanneyjar við fyrirspurn mbl.is segir hún að á fundi fræðsluráðs þann 26. júní hafi verið fjallað um erindi umboðsmanns barna varðandi aðstöðu þeirra nemenda sem komi með nesti að heiman til að matast í matsal Áslandsskóla.

Á fundinum hafi fræðslustjóra verið falið að fylgja erindinu eftir. „Fræðsluráð lagði í bókun sinni áherslu á að stjórnendur Áslandsskóla taki til endurskoðunar aðstöðu nemenda í matarhléum frá og með nýju skólaári með það fyrir augum að tryggja öryggi, svigrúm til samveru og tækifæri til félagslegar samskipta og tengslamyndunar í matarhléum sem og öðrum stundum innan skóladagsins,“ segir í svari Fanneyjar.

Unnið sé að lausn málsins og úrlausnar að vænta á næstu vikum. „Við höfum það ávalt að leiðarljósi að ekki verði brotið á rétti barnanna hvorki í þessu máli né nokkrum öðrum innan grunnskóla bæjarins.“

Erindi Umboðsmanns barna og lausnarleiðir verði tekin fyrir á næsta fund skólaráðs Áslandsskóla þar sem fulltrúar skólasamfélagsins sitja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert