Dómur í kynferðisbrotamáli mildaður

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur dæmt karlmann í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára stúlku árið 2015 og dæmt hann til að greiða henni 1.3 milljónir króna í miskabætur. Héraðsdómur Reykjaness hafði einnig dæmt manninn í 18 mánaða fangelsi og en það var ekki bundið skilorði.

Í reifun Landsréttar kemur fram að með vísan til ungs aldurs mannsins þegar hann braut af sér og þess að hann hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi þótti rétt að fresta að öllu leyti fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið. Maðurinn var 17 ára þegar brotið var framið.

Hann var einnig dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, tæpar 1,5 milljónir króna.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Landsfréttar í janúar síðastliðnum en Héraðsdómur Reykjaness kvað upp sinn dóm í desember í fyrra.

Fram kemur í dómi Landsréttar að tilkynnt hafi verið um brot mannsins með bréfi félagsráðgjafa 27. febrúar 2015. Rannsókn málsins virðist hafa verið lokið í septemberlok 2015 en ákæra var ekki gefin út á hendur manninum fyrr en 26. maí 2017. Þá voru tæplega 27 mánuðir liðnir frá því að brotið var kært og tæpir 20 mánuðir frá lokum rannsóknar.

„Ekki hafa komið fram neinar skýringar á þessum drætti á rekstri málsins. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til þess að ákærði var ungur að árum þegar hann braut af sér og hefur aldrei áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi verður fullnustu refsingar hans frestað skilorðsbundið að öllu leyti samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga eins og í dómsorði greinir,“ segir í dóminum.

Einn af þremur dómurum í málinu, Aðalsteinn E. Jónasson, skilaði sératkvæði í Landsrétti og kvaðst vera ósammála niðurstöðu meirihluta dómara. Taldi hann að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna sekt mannsins og því bæri að sýkna hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert