Tími aðgerða að renna upp

Fyrir liggur að ójafnræði á húsnæðismarkaði hefur farið vaxandi á …
Fyrir liggur að ójafnræði á húsnæðismarkaði hefur farið vaxandi á síðustu árum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að skipa starfshóp til þess að útfæra sértækar aðgerðir sem eiga að gera ungu og tekjulágu fólki kleift að kaupa sér íbúðarhúsnæði, en félags- og jafnréttismálaráðherra lagði fram tillögu þess efnis á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Að því er segir í tilkynningu Stjórnarráðsins er ákvörðunin í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem sérstaklega er kveðið á um aðgerðir til þess að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað með því að endurskoða stuðningskerfi hins opinbera þannig að hann nýtist fyrst og fremst þessum hópum.

Möguleikar á nýtingu lífeyrissparnaðar til íbúðakaupa er meðal þess sem skoðað verður í þessu samhengi, en fyrir liggur að ójafnræði á húsnæðismarkaði hefur farið vaxandi á síðustu árum.

Velferðarráðuneytið hefur um skeið unnið að kortlagningu ýmissa úrræða sem nágrannalönd bjóða tekjulágum á húsnæðismarkaði í samvinnu við Íbúðalánasjóð og segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, tíma aðgerða að renna upp.

„Nú er mikil greiningarvinna að baki og komið að því að stíga fyrstu skref til aðgerða. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að kalla fleiri að borðinu til að útfæra þær nánar og hrinda þeim í framkvæmd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert