Glæpur, gáta og metoo

Lára Jóhanna Jónsdóttir og Mikael Köll Guðmundsson í hlutverkum sínum …
Lára Jóhanna Jónsdóttir og Mikael Köll Guðmundsson í hlutverkum sínum í Flateyjargátunni.

„Í grunninn er þetta gert úr þremur þáttum. Í fyrsta lagi er þetta glæpasaga. Maður er myrtur, lögreglan rannsakar málið og við fáum að lokum að vita hver er sekur. Í öðru lagi er þetta fjörgömul gáta að hætti Da Vinci Code. Gröf síðasta heiðna goðans á Íslandi finnst. Í þriðja lagi er þetta metoo-saga um kynbundið ofbeldi sem aðalsöguhetjan þarf að gera upp.“

Þetta segir Björn B. Björnsson, leikstjóri Flateyjargátunnar, nýrrar leikinnar þáttaraðar sem hefur göngu sína á RÚV í kvöld. Þættirnir byggja lauslega á skáldsögu Viktors Arnars Ingólfssonar frá 2002 en handritshöfundur er Margrét Örnólfsdóttir. 

Björn B. Björnsson leikstjóri á tökustað.
Björn B. Björnsson leikstjóri á tökustað. Ljósmynd/Nanna Rúnarsdóttir

Flatey lítið breyst

Afar sjaldgæft er að leiknir íslenskir sjónvarpsþættir gerist ekki í samtímanum en árið 1971 varð fyrir valinu svo tengja mætti þráðinn við merkan viðburð úr Íslandssögunni, afhendingu handritanna. Bók Viktors Arnars gerist um áratug fyrr.

„Það er ekki auðvelt að gera períóðu á Íslandi,“ segir Björn, „enda blasir samtíminn við hvert sem þú beinir myndavélinni. Flatey gerir þetta hins vegar mögulegt enda hefur lítið breyst þar á þessum tæplega fimmtíu árum. Húsin eru að vísu fínni núna en þá. Hipparnir, sem orðnir eru lögfræðingar og læknar í dag, voru ekki búnir að kaupa þau og gera upp. En við höfum okkar ráð með það. Sagan gerist að langstærstum hluta í Flatey.“

Lára Jóhanna Jónsdóttir fer með aðalhlutverkið í þáttunum, Jóhönnu. „Ýmsir kannast örugglega við Láru úr leikhúsinu en ef að líkum lætur munu miklu fleiri þekkja hana eftir sýningu þáttanna. Mikið mæðir á Láru og frá mínum bæjardyrum séð leysir hún verkefnið snilldarlega. Við prófuðum marga leikara í flest hlutverk og Lára passaði best í hlutverk Jóhönnu. Hún er mjög tilfinningarík leikkona sem skilar miklu með augunum einum saman.“

Það er liðin tíð að íslenskt sjónvarp sé bara fyrir Íslendinga. Sýningarrétturinn á Flateyjargátunni hefur þegar verið seldur til Norðurlandanna, auk þess sem Sky keypti dreifingarréttinn, svo sem fram hefur komið, og rann það fé inn í gerð þáttanna. „Ég veit ekki á þessari stundu hvert rétturinn verður seldur en það er mjög ánægjulegt að sjá hversu áhugasamir þeir hjá Sky eru. Þeir hafa virkilega trú á þessu verkefni. Ef að líkum lætur verður Flateyjargátan sýnd víða um lönd,“ segir Björn.

Í því sambandi nýtur Flateyjargátan góðs af norræna glæpaþáttavorinu, Nordic Noir, eins og það hefur verið kallað. Norrænir glæpaþættir eru einfaldlega í tísku og nærtækasta dæmið er líklega Ófærð sem flaug um allan heim við glimrandi undirtektir. „Við tikkum sannarlega í það box þó að önnur element séu þarna líka,“ segir Björn. „Menn vita orðið hvaða standard er á leiknu íslensku sjónvarpsefni.“

Gríðarleg tækifæri

Hann segir tækifærin gríðarleg ytra. „Nýjar efnisveitur eins og Netflix eru eins og óseðjandi skrímsli; framleiða einar og sér 200 bíómyndir á ári. Eftirspurn eftir vönduðu efni er mjög mikil og hefðum við stærri sjóð fyrir leikið sjónvarpsefni hérlendis gætum við framleitt mun meira. Eins og staðan er í dag er bara hægt að framleiða tvær leiknar seríur á ári – núna eru það Flateyjargátan og Ófærð 2 – en gætum selt miklu fleiri þáttaraðir erlendis.“

Að sögn Björns snýst þetta ekki nema að litlum hluta um fjármögnun enda standi Kvikmyndasjóður Íslands ekki undir nema 10-15% af framleiðslukostnaði Flateyjargátunnar. Það að hafa Kvikmyndasjóð Íslands á bak við sig feli hins vegar í sér ákveðinn gæðastimpil og án aðkomu hans sé svo gott sem útilokað að fjármagna íslenskt sjónvarpsefni erlendis.
„Við gætum nýtt tækifærið betur. Útlendingar eru tilbúnir að borga meirihlutann af framleiðslukostnaði við íslenskt efni á íslensku sem gert er eftir íslenskum sögum. Við verðum að nýta okkur þennan meðbyr. Enginn veit hvað þessi áhugi muni vara lengi.“

Nánar er rætt við Björn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert