Hús íslenskra hjóna brann til kaldra kola

Mikill bruni varð þegar eldur kviknaði í einbýlishúsi íslenskra hjóna …
Mikill bruni varð þegar eldur kviknaði í einbýlishúsi íslenskra hjóna í Skive í Danmörku. Mynd/Skjáskot úr Facebook-myndbandi

Íslenskum hjónum, sem búsett eru í bænum Skive í Danmörku, bárust daprar fréttir í gær þegar tilkynning barst um að hús þeirra væri alelda. Þau höfðu farið í afmæli, en stuttu eftir að þangað var komið var hringt og þeim sagt að hús þeirra væri alelda. 

Þetta hefur mbl.is eftir ættingja mannsins. 

Mikill eldur

„Þegar ég kom hingað var eldur í öllu húsinu og allt innbúið og allar eigur þeirra eru brunnar,“ hefur Skive Folkeblad eftir Jan Nygaard Christensen í slökkviliði Norðvestur-Jótlands.

Tilkynning barst slökkviliðinu í Skive um hádegi í gær og var ekki vitað hvort húsið hafi verið mannlaust. Það hafi fljótlega komið í ljós að enginn var heima svo sjúkrabíll var ekki sendur á vettvang, en slökkvistarf stóð fram eftir degi. Í gærkvöldi kviknaði síðan aftur eldur, þá vegna þess að glóð hafði leynst í húsinu undir rústum þaksins.

Ekki var upplýst um þjóðerni íbúa hússins í dönskum fjölmiðlum, en sagt hefur verið frá brunanum á Facebook.

Nágrannar vilja aðstoða

Á Facebook-síðu Jebjerg-hverfisins í Skive var birt myndband af brunanum og hafa margir nágrannar hjónanna boðið fram aðstoð sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert