Fundur um ummæli Gunnars verður opinn

Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar …
Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, hafa verið kallaðir fyrir nefndina. Samsett mynd

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur samþykkt beiðni Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að fundur, eða fundir, nefndarinnar þar sem ræða á ummæli þingmanna Miðflokksins um meinta sendi­herra­stöðu fyr­ir Gunn­ar Braga Sveinsson, verði opnir.

Fram kom í síðustu viku, að nefndin hefði samþykkt að kalla þingmennina Bjarna Bene­dikts­son, Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son, Guðlaug Þór Þórðar­son og Gunn­ar Braga Sveins­son fyr­ir nefnd­ina vegna um­mæla um meinta sendi­herra­stöðu fyr­ir Gunn­ar Braga.

Óli Björn greinir frá þessu í færslu á Facebook.

Óli Björn Kárason.
Óli Björn Kárason. mbl.is/Eggert

Hann segir jafnframt, að í reglum um opna fundi fastanefnda Alþingis sem sendir séu út í sjónvarpi og á vef Alþingis, segi að formanni viðkomandi nefndar beri að leita eftir því með hæfilegum fyrirvara að gestur komi á opinn fund og gera honum grein fyrir efni fundarins.

„Þá skuli fjölmiðlar „eiga þess kost að láta fulltrúa sína fylgjast með opnum fundi. Jafnframt skal fundurinn opinn almenningi eftir því sem húsrúm leyfir.“

Ljósvakamiðlum sé heimilt að hafa beinar útsendingar frá fundum nefnda sem eru opnir. 

Ekki liggur fyrir hvenær fundur (fundir) Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verður,“ skrifar Óli Björn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert