Vonaði að þeir væru í tjaldinu

Aisthorpe segist aldrei hafa verið jafn einmana og þegar hann …
Aisthorpe segist aldrei hafa verið jafn einmana og þegar hann gekk að búðum Kristins og Þorsteins.

Skoskur fjallgöngumaður, sem var með þeim Kristni Rúnarssyni og Þorsteini Guðjónssyni í för þegar þeir hugðust ganga á Pumori í Nepal, en þurfti frá að hverfa vegna veikinda, segist hafa fengið sálarró þegar lík íslensku félaganna fundust í síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í viðtali Guardian við Steve Aisthorpe sem leitaði árangurslaust að félögum sínum í Himalajafjöllum fyrir 30 árum.

Aisthorpe, sem er 55 ára gamall og starfar fyrir skosku kirkjuna, segir fundinn óneitanlega hafa vakið hjá honum gamlar tilfinningar, líkt og hjá öllum öðrum sem þekktu og elskuðu þessa frábæru menn.

Líkt og fjallað hefur verið um á mbl.is segir í frétt Guardian að líkamsleifar Kristins og Þorsteins hafi verið fluttar til höfuðborgar Nepal, Katmandú, þar sem bálför hafi farið fram, að ættingjum viðstöddum, sem hafi síðan flutt ösku þeirra heim til Íslands.

Þögnin áþreifanleg

Aisthorpe segist aldrei hafa verið jafn einmana og þegar hann gekk að búðum Kristins og Þorsteins, eftir að hafa sjálfur snúið í grunnbúðirnar vegna veikindanna. „Á leiðinni upp vonaði ég innilega að Kristinn og Þorsteinn hefðu komist örugglega niður og lægju í svefnpokunum sínum í litla rauða tjaldinu.“

„Þegar ég sá það, kallaði ég eins hátt og ég gat, en röddin mín bergmálaði af klettum og ís áður en hún dó út. Þögnin var áþreifanleg.“

Þegar Aisthorpe kom að tjaldinu uppgötvaði hann að það var tómt. „Það var þá sem maginn fór á hvolf og ég svitnaði köldum svita,“ lýsir hann fyrir Guardian. Aisthorpe kallaði síðan eftir hjálp og nokkrum dögum síðar var þyrla fengin til að hjálpa til við leitina. Þegar engin merki um þá Kristin og Þorstein fundust sneri Aisthorpe heim á leið.

Hann hafði engar fregnir fengið af örlögum íslenskra félaga sinna fyrr en íslenskur kvikmyndagerðarmaður, sem hann hafði þegar verið í samskiptum við vegna kvikmyndar um afrek Aisthorpe, hafði samband og spurði hvort hann hefði heyrt af fundinum.

Sendi yfirvöldum ljósmyndir af Þorsteini og Kristni

„Það sem ég hugsaði fyrst var hvort þetta væru í raun og veru lík þeirra,“ segir Aisthorpe. Yfirvöld í Nepal höfðu samband við Aisthorpe, og hann gat sent þeim ljósmyndir sem hann hafði tekið af Kristni og Þorsteini. Þannig var hægt að bera kennsl á búnað þeirra félaga.

Aisthorpe segir trúna hafa spilað stórt hlutverk í því hvernig hann tókst á við sorgina en kveðst hafa fengið málalyktir vegna fundarins. Hann hefur í hyggju að ferðast til Reykjavíkur til að hitta fjölskyldur Þorsteins og Kristins og votta þeim samúð sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert