Reyndi að slökkva eld í nágrannaíbúð

Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í morgun.
Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út undir hádegi eftir að tilkynning barst um eld í íbúð í Írabakka í Breiðholtinu. Voru slökkviliðsbílar frá öllum stöðvum sendir á vettvang en talið var í fyrstu að einstaklingur væri innlyksa í íbúðinni.

Er á staðinn var komið reyndist eldurinn hafa kviknað út frá potti sem gleymdist á eldavél, en eigandi íbúðarinnar var ekki heima. Nágranni hafði hins vegar farið inn í íbúðina til að bjarga málum og var hann fluttur á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.

Vel gekk að slökkva  eldinn sem ekki var umfangsmikill, en mikill reykur var þó í íbúðinni.

Trampólín, vinnupallar og tré fjúkandi

Slökkviliðið hafði annars í nógu að snúast í morgun líkt og björgunarsveitir og lögregla við að sinna foktengdum útköllum.

Tilkynnt barst m.a. um um vinnupalla sem voru að fjúka í miðborginni, ekkert tjón varð hins vegar, né slys á fólki. Þá bárust einnig tilkynningar um a.m.k nokkur trampólín og eins lögðust vinnugirðingar á hlið þegar hvassviðrið gekk yfir.

Einnig bárust tilkynningar um tré sem brotnuðu í veðurofsanum og féll eitt slíkt þvert yfir götu í Hafnarfirði að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Engin slys urðu hins vegar á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert