Gul vesti rjúka ekki út

Mótmælendur í Frakklandi klæðast gulum vestum.
Mótmælendur í Frakklandi klæðast gulum vestum. AFP

Sala á gulum vestum hefur ekki aukist undanfarna daga eða vikur þrátt fyrir sögusagnir á samfélagsmiðlum og umfjöllun fjölmiðla um stóraukna sölu. Þetta segja forsvarsmenn smásöluaðila sem selja slík vesti í samtali við mbl.is.

Það vakti athygli á dögunum þegar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, greindi frá því á Facebook að hann væri búinn að fjárfesta í gulu vesti með með áprentuðum slagorðum og spurði hvort hann ætti að panta fleiri slík vesti.

Gult vesti er tilvísun til mótmæla almennings í Frakklandi sem hófust um miðjan nóvember og hafa farið skipulega fram allar helgar síðan. Mótmælendur klæðast gulum vestum. Í upphafi snerust mótmælin um fyrirhugaðar skattahækkanir á eldsneyti en þau þróuðust fljótlega í allsherjarmótmæli, aðallega gegn stefnu Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Vinsæl hjá unglingum

„Nei það hefur ekki aukist hjá okkur nema þegar skólarnir voru að byrja í haust. Þá var tíska að vera í svona á skólaböllum hjá unglingunum en við höfum ekki orðið varir við að það hafi aukist núna,“ segir Ólafur Óskar Ólafsson, aðstoðarverslunarstjóri Byko í Breidd, í samtali við mbl.is.

Ólafur sagði þó að sala á gulum vestum hefði aukist milli ára en hana mætti rekja til þess að iðnaðarmenn séu duglegri að nota slík vesti en áður.

„Hún hefur alla vega ekki aukist enn þá en ég hafði hugsað mér að panta kannski meira inn ef það gerist. En salan hefur ekki verið mikil núna,“ segir Jón Björn Steingrímsson, deildarstjóri verkfæradeildar hjá Bauhaus, í samtali við mbl.is.

Grunnskólabörn í Reykjavík nota gul vesti sem öryggisbúnað. Mynd úr …
Grunnskólabörn í Reykjavík nota gul vesti sem öryggisbúnað. Mynd úr safni. mbl.isÁrni Sæberg

Meiri áhugi en sölutölur standa í stað

Bjarki Þór Árnason, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar í Skútuvogi, sagðist ekki merkja neina breytingu á sölutölum í þeirri verslun. Hann sagði þó að það væri aðallega Fagmannaverslun Húsasmiðjunnar sem seldi föt líkt og umrædd vesti.

„Ég er ekki með neinar tölur sem ég get vitnað í en það hefur verið spurt meira um þetta. En það er ekki merkjanlegt í neinum sölutölum. Það virðist þó vera meiri áhugi á því hvort þau séu til og annað slíkt,“ segir Finnur Guðmundsson, framkvæmdarstjóri fagsölusviðs Húsasmiðjunnar, í samtali við mbl.is.

Hann segir einnig að Húsasmiðjan selji gul vesti aðallega til verktaka en að almenningur hafi sýnt þessu meiri áhuga undanfarið heldur en verktakarnir. Spurður hvort að hann ætti nóg á lager fyrir næstu búsáhaldabyltingu stóð ekki á svörum: „Já já, það er ekki spurning.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert