Sex þingmenn metnir hæfir

mbl.is/Hari

Sex þingmenn koma til greina til setu í nýrri forsætisnefnd Alþingis með það eina verkefni að koma svokölluðu Klaustursmáli áfram til siðanefndar Alþingis, en nefndin verður skipuð í næstu viku í kjölfar þess að allir fulltrúar í forsætisnefnd lýstu sig vanhæfa í málinu vegna þess að þeir höfðu tjáð sig um það.

Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins og vísað í heimildir þess. Þrír af þingmönnunum sem um ræðir eru í Sjálfstæðisflokknum, tveir úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og einn úr Miðflokknum. Þeir eru sjálfstæðismennirnir Óli Björn Kárason, Haraldur Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson, Steinunn Þóra Árnadóttir frá VG og Sigurður Páll Jónsson frá Miðflokknum. Sigurður mun þó hafa beðist undan setu í nefndinni.

Klaustursmálið snýst um orðfæri fjögurra þingmanna Miðflokksins og tveggja þingmanna Flokks fólksins á öldurhúsinu Klaustri í nóvember. Umræddir þingmenn Flokks fólksins standa nú utan flokka eftir að þeim var vísað úr flokknum vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert