Bandarískir hermenn létust í Sýrlandi

Bandarískir hermenn eftir sprengjuárásina í Manjib í dag.
Bandarískir hermenn eftir sprengjuárásina í Manjib í dag. AFP

Fjórir bandarískir hermenn eru sagðir á meðal þeirra sextán sem eru látnir eftir sjálfsmorðsárás í norðurhluta Sýrlands í dag, nánar tiltekið í bænum Manjib. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Greint er frá þessu á vef Reuters.

Bandarískur embættismaður sem tjáir sig við Reuters í skjóli nafnleyndar segir að fjórir hermenn hafi látist og þrír til viðbótar særst í árásinni. Ekki hefur fengið staðfest frá yfirvöldum hve margir hermenn létu lífið, en Reuters hefur það frá öðrum heimildarmönnum að einungis tveir hermenn hafi fallið.

Í tilkynningu frá fjölþjóðlega herliðinu sem er að störfum á svæðinu kemur fram að bandarískir hermenn hafi fallið í sprengingu er þeir voru í reglubundinni eftirlitsferð í Manjib, en ekki er greint frá því hve mikið mannfallið var.

Til stendur að herlið Bandaríkjanna í Sýrlandi hverfi þaðan á næstunni, en þar hafa um 2.000 bandarískir hermenn verið staðsettir síðan árið 2015 og barist gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur raunar lýst hryðjuverkasamtökunum sem gjörsigruðum, en sem áður segir lýsa þau árásinni í dag á hendur sér.

Frá vettvangi í Manjib í dag.
Frá vettvangi í Manjib í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert