Álagningin lækkar á kjörtímabilinu

Fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans í borgarráði halda því til haga að fasteignaskattar …
Fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans í borgarráði halda því til haga að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði muni lækka fyrir lok kjörtímabilsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvæði laga kveða skýrt á um heimild og fyrirkomulag álagningar fasteignaskatta og hvernig reikna skuli stofn álagningar fasteignagjalda, samkvæmt umsögn fjármálastjóra og borgarlögmanns Reykjavíkurborgar um erindi Félags atvinnurekenda (FA) til borgarinnar.

Þetta kemur fram í bókun fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans í borgarráði frá því í morgun og einnig er tekið fram að hlutfall fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði muni lækka úr lögbundnu hámarki (1,65%) niður í 1,63% árið 2021 og svo niður í 1,60% árið 2022. Þá er bent á að fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði hafi verið lækkuð á síðasta kjörtímabili.

Erindi FA var rætt á borgarráðsfundi í morgun, en félagið sendi Reykja­vík­ur­borg og fleiri sveit­ar­fé­lög­um bréf þess efn­is að í grein­ar­gerð með lög­um um tekju­stofna sveit­ar­fé­laga komi fram að álag á fast­eigna­skatta eigi að vera end­ur­gjald fyr­ir veitta þjón­ustu, en ekki eig­in­leg­ir eigna­skatt­ar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði bókuðu að það væri „áhugavert, og kannski ámælisvert“ að borgin hefði ekki veitt „efn­is­leg­an rök­stuðning sem sýndi fram á að beit­ing álags­ins væri nauðsyn­leg vegna kostnaðar við að veita fyr­ir­tækj­um borg­ar­inn­ar þjón­ustu.“

Vegna þessarar bókunar Sjálfstæðisflokksins lögðu fulltrúar meirihlutaflokkanna fram gagnbókun, þar sem sagði að í Reykjavík væri eitt lægsta álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði í landinu.

„Verðlagseftirlit ASÍ komst þannig að því [að] hverfi í Reykjavík eru meðal þeirra allra hagstæðustu á landinu þegar horft hefur verið til álagningar á fasteignaeigendur, þegar tekið hefur verið mið af álagningarhlutfalli annars vegar og fasteignaverði hins vegar,“ segir í bókuninni, auk þess sem aftur var minnt á að lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði komi til framkvæmda á síðari hluta kjörtímabilsins, í samræmi við samstarfsyfirlýsingu flokkanna fjögurra.

„Það er ábyrg afstaða sem tekur mið af fjárhagsstöðu borgarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og þeirra brýnu verkefna sem borgin er að fást við og fjármagna,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert