„Löngu tímabært“ að lækka álagninguna

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvívegis lagt fram tillögur um það í borgarstjórn …
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvívegis lagt fram tillögur um það í borgarstjórn að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækkuðu úr 1,65% í 1,60%, en þeim tillögum hefur verið hafnað af meirihlutanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er löngu tímabært að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í Reykjavík,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram undir umræðu um erindi Félags atvinnurekenda vegna álagningar fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði á borgarráðsfundi í morgun.

Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélögum bréf þess efnis að í greinargerð með lögum um tekjustofna sveitarfélaga komi fram að álag á fasteignaskatta eigi að vera endurgjald fyrir veitta þjónustu, en ekki eiginlegir eignaskattar.

Vegna hækkandi fasteignamats í borginni hafa innheimt fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði hækkað mikið og ýmis sveitarfélög lækkað skattana, en í Reykjavík eru þeir í lögfestu hámarki, eða 1,65%.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvívegis lagt fram tillögur um það í borgarstjórn að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækkuðu úr 1,65% í 1,60%, enda væri fyrirséð að fasteignamat myndi hækka sem leiðir til hærri fasteignaskatta. Tillagan var felld í bæði skiptin.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja í bókun sinni að það sé „áhugavert, og kannski ámælisvert, að þegar FA innti Reykjavíkurborg eftir svörum um skýringar á innheimtu álagsins, hafi borgin ekki getað veitt neinn efnislegan rökstuðning sem sýndi fram á að beiting álagsins væri nauðsynleg vegna kostnaðar við að veita fyrirtækjum borgarinnar þjónustu.“

Fyrirtæki lætur reyna á innheimtuna

Fyrirtækið Trausttak ehf. ákvað að höfða mál gegn Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg vegna hækkunar fasteignamats og hækkandi fasteignaskatta í kjölfarið, en málinu var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október síðastliðinn, aðallega á grundvelli þess að kröfur málsins á hendur Þjóðskrá og borginni ættu ekki sameiginlegan uppruna. 

Landréttur komst að þeirri niðurstöðu að fella ætti úrskurðinn úr gildi, varðandi kröfur Trausttaks í garð Þjóðskrár. Því fer málið aftur fyrir héraðsdóm, en einungis hvað varða Þjóðskrá.

Rætt var um mál fyrirtækisins á fundi borgarráðs og bókuðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks að fasteignamat og þar með fasteignaskattar þess, af 80 fermetra eign í Kringlunni, hefðu hækkað um 98% á milli áranna 2014 og 2017.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks segja að líklegt sé að heimild til 25% álags á fasteignagjöld hafi verið sett í lög til að veita sveitarfélögum viðbótarheimild þar sem fasteignamat er lágt. „Það á ekki við um Reykjavík þar sem fasteignamat er með því hæsta,“ segir í bókun þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert