Pattstaða í fatasöfnun yfir jólin

Á hverju ári skila landsmenn um 3.000 tonnum af fötum …
Á hverju ári skila landsmenn um 3.000 tonnum af fötum til Rauða krossins. mbl.is/Styrmir Kári

„Við erum sannarlega ekki hætt að taka við fötum,“ segir Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri fjáröflunar- og kynningarsviðs Rauða krossins. Landsmenn voru afar duglegir að að skila fötum í fatagáma Rauða krossins um og fyrir jólahátíðina og um tíma höfðu starfsmenn og sjálfboðaliðar ekki undan.

„Það kemur yfirleitt mjög mikið til okkar í júní og júlí, þegar fólk tekur til í geymslunum, og oft á tíðum líka fyrir jólin,“ segir Björg.

Fáir vinnudagar yfir hátíðarnar hafi einnig spilað inn í. „Það er ekkert öðruvísi hjá Rauða krossinum en hjá öðrum fyrirtækjum, allir vilja vera í fríi. Svo var okkar stærsti viðskiptaaðili erlendis, sem tekur við því sem við notum ekki hér heima og flokkar í 600 undirflokka, í tveggja vikna fríi.“

„Allt þetta hökt í keðjunni hafði mikil áhrif. Við gátum ekki annað öllu sem okkur barst, en við erum að ná þessu upp aftur og fólk þarf ekki að óttast að ekki verði tekið við fötum í Sorpu um helgina,“ segir Björg.

Auk fría yfir hátíðarnar, sem settu mark sitt á úrvinnslugetu Rauða krossins, segir Björg að óvenjumikið hafi á því borið að ýmislegt hafi fylgt með fötunum sem ekki átti þar heima. „Við höfum ekki séð það í þessu magni áður, það var allskonar drasl í gámunum okkar. Þá þurfum við að eyða tíma í að flokka það frá og það tekur pláss áður en við getum komið því á rétta staði.“

„Það hefur gríðarleg áhrif,“ segir Björg, og ítrekar að loka þurfi fatapokum vel áður en þeim er skilað.

Á hverju ári skila landsmenn um 3.000 tonnum af fötum til Rauða krossins, sem sér til þess að þau fái framhaldslíf, hvort sem það er hér innanlands eða þau send erlendis til endurvinnslu.

„Fólk er ótrúlega duglegt að koma með föt til okkar og við sjáum að fólk reynir í auknum mæli að endurnýta og minnka sóun. Það er mikið að gera í búðunum hjá okkur, fólk hefur áhuga á að endurnýja og endurnota. Við finnum fyrir því hvað samfélagið er að taka við sér,“ segir Björg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert