Sleginn ítrekað í andlitið

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa veist með ofbeldi að öðrum manni í Mosfellsbæ og slegið hann ítrekað með krepptum hnefa í andlitið.

Afleiðingarnar urðu þær að maðurinn hlaut sár á innanverðri neðri vör, eymsli hægra megin á enni og í kringum kjálka, roða á brjóstkassa og tognun á hálsi, auk þess sem tönn í efri gómi losnaði tímabundið.

Maðurinn játaði brotið en atvikið átti sér stað 28. desember 2016. 

Hann var einnig dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 288.700 krónur í skaða- og miskabætur með vöxtum en í einkaréttarmáli hafði verið krafist 538.700 króna í skaða- og miskabætur.

Ákærði var einnig dæmdur til að greiða kröfuhafa 150 þúsund krónur í málskostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert