Flugvélar Circle Air kyrrsettar eftir slys í Svíþjóð

GippsAero GA8 Airvan-flugvél Circle Air fyrir framan Herðubreið. Flugvélin hefur …
GippsAero GA8 Airvan-flugvél Circle Air fyrir framan Herðubreið. Flugvélin hefur verið kyrrsett vegna slyssins í Svíþjóð en vélarnar hafa lengi þótt afar traustar. Ljósmynd/Circle Air

Evrópsk flugmálayfirvöld hafa kyrrsett allar flugvélar af sömu tegund og flugvélin sem fórst í Umeå í Svíþjóð fyrir viku með þeim afleiðingum að níu manns létu lífið. Báðar flugvélar íslenska flugfélagsins Circle Air eru af þessari tegund og hefur félagið því þurft að verða sér út um lánsvélar á meðan kyrrsetningin stendur yfir.

Flugvélarnar sem um ræðir eru af gerðinni GippsAero GA8 Airvan.

Reksturinn gengur vel og kyrrsetningin mun hafa lágmarksáhrif

Circle Air gerir út þyrlur og flugvélar frá Akureyri og Reykjavík og telur framkvæmdarstjóri flugfélagsins að kyrrsetning muni hafa lítil áhrif á reksturinn sem gangi vel.

„Það verður lágmarksröskun [á rekstri Circle Air] en það er háannatími núna og auðvitað kemur þetta ekki vel við reksturinn,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri Circle Air, í samtali við mbl.is og bætir við:

„En sem betur fer hvílir reksturinn á mörgum stoðum og við þolum þetta í einhvern tíma en ef þetta verður til langs tíma þá mun það auðvitað rífa í. Það segir sig sjálft.“

GippsAero GA8 Airvan er búin stórri rennihurð sem gerir hana …
GippsAero GA8 Airvan er búin stórri rennihurð sem gerir hana vinsæla meðal fallhlífarstökkvara. Níu manns voru í vélinni sem hrapaði í Svíþjóð en einungis átta mega vera í vélinni meðan hún er á flugi. Ljósmynd/Circle Air

Slysið í Svíþjóð algjört furðuslys (e. freak accident)

Hann segir ekkert hægt að segja til um hvað kyrrsetningin gæti varað lengi, hvort sem það er ein vika eða sex mánuðir. Hann telur þó enga sérstaka ástæðu benda til þess að kyrrsetningin gæti varað í langan tíma þar sem slysið í Svíþjóð hafi verið furðufyrirbæri eða „freak accident“.

„Það er engin sérstök ástæða til að halda að þetta verði langt. Þessar vélar hafa ekki lent í neinum öðrum slysum nema árið 2008 en það var af allt öðrum ástæðum. „Freak accident“ er nákvæmlega orðið yfir þetta [slysið í Svíþjóð],“ útskýrir hann og bætir því við að GippsAero GA8 Airvan-flugvélarnar hafa í marga áratugi verið notaðar í erfiðum aðstæðum svo sem við björgunarstörf og í hjálparstörfum í Afríku.

Circle Air hefur fengið tvær Cessna-flugvélar til að brúa bilið á meðan GA8 vélarnar eru kyrrsettar, annars vegar Cessna 206 og hins vegar Cessna 207.

GippsAero GA8 Airvan hefur marga góða kosti

Þorkell Jóhannsson, flugmaður hjá Circle Air, segir að Cessna-vélarnar hafi svipaða eiginleika og GA8 og muni því nýtast vel. Spurður hverjir kostir GippsAero GA8 Airvan-flugvélanna séu segir Þorkell að þær séu vel og skemmtilega hannaðar og henti í ýmsum aðstæðum.

„Hún hefur þá kosti að vera sterkbyggð og traust með stóra glugga og þannig upplögð í útsýnisflug. Í henni eru gangar milli sæta og stór rennihurð sem gerir auðvelt að umgangast hana og þess vegna er hún vinsæl fyrir fallhlífarstökk.

Gangur er á milli sæta í GippsAero GA8 Airvan og …
Gangur er á milli sæta í GippsAero GA8 Airvan og er því auðvelt að athafna sig í henni. Ljósmynd/Circle Air

Framleiðsla stöðvuð meðan rannsókn stendur yfir

En GA8-vélarnar hafa ekki einungis verið kyrrsettar í Evrópu heldur hafa flugmálayfirvöld í Ástralíu kyrrsett 68 slíkar vélar þar í landi. Þetta kom fram á vef The Guardian í gærkvöldi. Sænsk flugmálayfirvöld kyrrsettu allar vélar af þessari gerð í kjölfar slyssins í Umeå og evrópsk flugmálayfirvöld gerðu slíkt hið sama á föstudaginn síðastlinn.

Flugvélarnar eru framleiddar í Ástralíu og eru eins hreyfils flugvélar með leyfi fyrir átta manns. Í flugvélinni sem fórst í Svíþjóð voru aftur á móti níu manns um borð.

Yfirvöld í Ástralíu hafa stöðvað framleiðsluna tímabundið á meðan rannsókn á vélunum fer fram. Kyrrsetning mun vara til 3. ágúst.

Alls eru 228 flugvélar af gerðinni GippsAero GA8 Airvan í notkun í heiminum.

GippsAero GA8 Airvan-flugvélarnar hafa verið notaðar í erfiðum aðstæðum í …
GippsAero GA8 Airvan-flugvélarnar hafa verið notaðar í erfiðum aðstæðum í marga áratugi bæði í hjálpar- og björgunarstarfi. Bandaríski herinn á fjöldan allan af slíkum vélum. Ljósmynd/Circle Air
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert