Óvissan ekki meiri frá kalda stríðinu

Björn Bjarnason tekur á móti Stuart Peach í Norræna húsinu …
Björn Bjarnason tekur á móti Stuart Peach í Norræna húsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuart Peach, formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir varnarmálin orðin ófyrirsjáanlegri en nokkru sinni frá lokum kalda stríðsins.

Þrjátíu árum eftir fall Berlínarmúrsins séu áskoranir í varnarmálum óljósar og í öllum heimshornum. Almenn samstaða sé um að alþjóðakerfi laga og reglna, sem byggt var upp eftir síðari heimsstyrjöldina, sé nú ógnað. Við því þurfi að bregðast. Þá komi ógnir úr nýjum áttum, þar með talið frá hópum sem ekki séu fulltrúar þjóðríkja.


Peach fór yfir stöðu varnarmála á fundi Varðbergs í Norræna húsinu  í dag en Björn Bjarnason, fv. ráðherra, var þar fundarstjóri. Nokkrir þingmenn sóttu fundinn. Peach er einn nánasti ráðgjafi Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO. Hann hóf herferil sinn í breska hernum.

Á sér langan aðdraganda

Peach ræddi aukin hernaðarleg umsvif Rússa á síðustu árum. Þau umsvif ættu sér langan aðdraganda. Til dæmis hefðu Rússar verið að nútímavæða sjóherinn í mörg ár. Þessar aðgerðir væru ekki aðeins hernaðarleg áskorun fyrir NATO, heldur væri hún mögulega ógn við samfélag okkar. Sæstrengir væru dæmi um möguleg skotmörk. 

Þá lagði Peach áherslu á hversu víðtækt NATO-samstarfið væri. Dæmi um það væri að Georgíumenn legðu til næstum þúsund hermenn vegna starfsemi NATO í Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert