Íbúar verði 434 þúsund árið 2068

Samkvæmt miðspánni verða dánir fleiri en fæddir á hverju ári …
Samkvæmt miðspánni verða dánir fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2055. mbl.is/​Hari

Íbúar Íslands verða 434 þúsund árið 2068 ef marka má miðspá Hagstofunnar um þróun mannfjöldans, en til samanburðar var mannfjöldinn 357 þúsund 1. janúar 2019. 

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Þar segir að í háspánni sé reiknað með að íbúar verði 506 þúsund í lok spátímabilsins en 366 þúsund samkvæmt lágspánni.

Hagstofa Íslands hefur framreiknað mannfjöldann fyrir tímabilið 2019 til 2068 á grundvelli tölfræðilíkana fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni. Spáafbrigðin þrjú, miðspá, háspá og lágspá, byggja á mismunandi forsendum um hagvöxt til næstu fimm ára, frjósemishlutfalli og búferlaflutningum. Einnig er gerð grein fyrir þróun mannfjöldans og samsetningu á tímabilinu.

Samkvæmt miðspánni verða dánir fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2055. Verður fjöldi aðfluttra hærri en fjöldi brottfluttra ár hvert samkvæmt öllum spáafbrigðum, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda, en íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu verða þó fleiri en þeir sem flytja til landsins.

Íslendingar enn um sinn yngri en flestar Evrópuþjóðir

Gangi miðspá eftir verður yfir 25% af heildarmannfjölda eldri en 65 ára árið 2055 og frá árinu 2046 verða þeir sem eldri eru en 65 ára í fyrsta sinn fjölmennari en þeir sem eru yngri en tvítugir.

Þótt þjóðin sé að eldast og fólksfjölgun verði fremur hæg, þá eru Íslendingar nú, og verða enn um sinn, mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Árið 2060 verður meira en þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en einungis um fjórðungur Íslendinga. Gert er ráð fyrir að Íslendingar nái núverandi hlutfalli innan Evrópusambandsins sem er 20% árið 2035.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert