Lægðagangur og umhleypingar

Með lægðinni fylgir einnig snjókoma og því ráðlegt að fylgjast …
Með lægðinni fylgir einnig snjókoma og því ráðlegt að fylgjast vel með fréttum að veðri og færð þurfi fólk að vera á ferðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkur snjókoma hefur verið á Norðurlandi síðastliðin sólarhring og eitthvað mun bæta í þar sem áfram verður éljagangur fram eftir degi á Norðurlandi eystra.

„Hæglætis veður er verður í flestum landshlutum í dag, norðlæg átt, 5-10 m/s og bjart með köflum eða léttskýjað. Enn verður þó vindstrengur austast á landinu, en ekki mun draga úr vindi þar fyrr en í nótt. Áfram verður kalt á landinu, frost á bilinu 2 til 10 stig.

Eftir hádegi á morgun kemur síðan lægð upp að suðurströndinni og hvessir á Suður- og Suðvesturlandi, vindur allt að 25 m/s þegar verst verður. Með lægðinni fylgir einnig snjókoma og því ráðlegt að fylgjast vel með fréttum að veðri og færð þurfi fólk að vera á ferðinni.
Útlit er síðan fyrir áframhaldandi lægðagang og umhleypingar í næstu viku,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur næstu daga

Norðlæg átt, 5-10 m/s, en 10-15 austast. Víða léttskýjað, en skýjað með köflum norðvestan til framan af degi.

Stöku él norðaustanlands, en úrkomuminna í kvöld og nótt. Frost 2 til 10 stig, kaldast norðanlands.

Austan 10-18 m/s á morgun, en 18-25 syðst. Snjókoma um landið sunnanvert, en hægari vindur og bjart með köflum á Norðausturlandi. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðaustanland.

Á laugardag:
Austlæg átt 8-13 m/s og skýjað en þurrt, en hægari norðaustanlands og stöku él. Austan 15-23 m/s um kvöldið, hvassast syðst, og snjókoma á köflum, en hægari á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 10 stig.

Á sunnudag:
Norðaustan 10-18, hvassast með suðausturströndinni, og snjókoma með köflum, en birtir til sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Suðaustanátt, snjókoma og síðar rigning, og hiti 0 til 5 stig. Skýjað og úrkomulítið á norðaustanverðu landinu og frost 2 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Hvöss norðaustlæg átt og snjókoma norðan- og vestan til, en hægari og rigning eða slydda suðaustan- og austanlands. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:
Ákveðin norðaustanátt með snjókomu um norðanvert landið. Kólnandi.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir austlæga átt og víða bjartviðri. Kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert