Sex klukkustundir að tengja Þór við kerfið

Brotnir staurar í Hörgárdal.
Brotnir staurar í Hörgárdal. Ljósmynd/Rarik

Búið er að tengja tiltækt varaafl á Dalvík en varðskipið Þór framleiðir það fyrir alla almenna notendur í bænum. Það tók um sex klukkustundir að tengja skipið við kerfið eftir að það lagðist að bryggju.

Rarik birtir á vefsíðu sinni stöðu á truflunum í dreifikerfinu eftir óveðrið sem gekk yfir landið í vikunni.

Ólafsfjörður og Siglufjörður eru með rafmagn frá Skeiðsfossvirkjun. Sveitin við Ólafsfjörð er enn rafmagnslaus og fram kemur að aðstæður til bilanaleitar eru erfiðar. Farið verður á vélsleðum til að kanna aðstæður.

Milli 10 og 20 staurar eru brotnir í Svarfaðardal en þeir verða skoðaðir og viðgerð á línu mun hefjast í dag. 

Enn eru keyrðar varaaflsvélar á Lindabrekku, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði. Flestir eru með rafmagn utan við nokkra bæi norðan við Kópasker en skömmtun á rafmagni er frá Lindabrekku og Raufarhöfn. Enn er talsvert rafmagnsleysi í Öxarfirði og Melrakkasléttu, ekki er vitað hvenær hægt verður að koma rafmagni á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert